Áætlun gegn ofbeldi

Reglurnar á pdf-sniði

Verklagsreglur GBF um tilkynningarskyldu starfsmanna grunnskóla til barnaverndarnefnda

Verklagsreglur þessar eru byggðar á vinnu menntamálaráðuneytisins, Sambands íslenskra sveitarfélaga, Barnaverndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu. Þær varða börn í skólanum frá upphafi leikskóla til loka grunnskóla.

Tilkynningarskylda þeirra sem afskipti hafa af börnum:

“Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með hönd um félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr.

Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétt“ Barnaverndarlög nr. 80/2002 17. gr. Með þessum verklagsreglum er gert ráð fyrir að starfsmenn grunnskólans meti hvort ástand, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr. Tilkynna skal um grun ekki aðeins staðfestar sannanir. Það er síðan barnaverndarnefnd og/eða starfsmenn hennar sem meta hvort grunur sé nægilega rökstuddur og taka ákvörðun um frekari könnun í framhaldi af því.

Hvað á að tilkynna ?

Helstu atriði sem tilkynnt er um varða grun eða vissu um vanrækslu, ofbeldi eða að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu. Hafa ber í huga að oft á tíðum er erfitt að tengja vanræksluna eða ofbeldið við eitthvert eitt atriði og ljóst er að ekki er unnt að nefna öll þau tilvik eða aðstæður þar sem barnaverndaryfirvöld eiga að koma að máli barns. Því þarf ætíð að meta hvert tilvik fyrir sig.

Barnaverndarmál eru oft gróflega flokkuð á eftirfarandi hátt: Vanræksla, andlegt ofbeldi, líkamlegt ofbeldi, kynferðislegt ofbeldi og að barn stefni heilsu sinni og þroska í hættu með eigin hegðun. Mörkin milli hinna ólíku flokka eru stundum óljós og ótal atriði er unnt að setja undir hvern flokk.

Listann hér að neðan má hafa til hliðsjónar til að hjálpa starfsmanni til að glöggva sig á líðan og ástandi barnsins. Mikilvægt er að undirstrika að listinn er ekki tæmandi.

Vanræksla:

Vanræksla getur verið bæði andleg og líkamleg og felur í sér að barn fái ekki þá umönnun og aðbúnað sem því er nauðsynlegt og sem hefur leitt til skaða á þroska þess eða er líklegt til þess. Vanræksla getur hafist strax á fósturstigi.

  • * Vanræksla getur falist í því að barn fái ekki líkamlegum þáttum fullnægt vegna sinnuleysis foreldra, ekki sé hugað að því að barn fái nauðsynlega heilbrigðisþjónustu o.fl.
  • * Vanrækslan getur varðað umsjón og eftirlit barnsins eins og að það sé skilið eftir eitt og eftirlitslaust án þess að hafa til þess aldur eða þroska eða að foreldrar eru ófærir um að sinni þörfum barnsins vegna eigin áfengis-eða vímuefnaneyslu.
  • * Vanræksla getur varðað skólagöngu barns, t.d. að barn komi ítrekað í skólann án nauðsynlegra áhalda eða fatnaðar og ábendingar til foreldra um það bera engan árangur.

Andlegt ofbeldi:

Andlegt ofbeldi er oft erfitt að greina en það getur engu að síður haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir barnið. Það felur í sér að foreldrar eða aðrir umönnunaraðilar sýna barninu viðvarandi neikvætt viðhorf og neikvæðar tilfinningar sem eyðileggur eða hindrar þróun jákvæðrar ímyndar barnsins.

  • * Andlegt ofbeldi getur falist í viðhorfi eða hegðun sem segir að barnið sé einskis vert, engum þyki vænt um það eða enginn vilji sjá það.
  • * Andlegt ofbeldi getur falist í algjöru aðgerðarleysi eins og að sýna barninu engar tilfinningar.
  • * Andlegt ofbeldi getur falist í að verða vitni af ofbeldi á heimili.

Líkamlegt ofbeldi:

Líkamlegt ofbeldi er ofbeldi sem beint er að börnum og hefur leitt til að barnið skaðist eða er líklegt til þess. Barnið getur borið merki ofbeldisins eins og t.d. marbletti, brunasár eða beinbrot sem barnið og/eða foreldrar reyna að fela eða eiga erfitt með að útskýra eða ef útskýring verður ótrúverðug.

  • * Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barnið er slegið, hrist, því hent til, brennt eða bundið.
  • * Líkamlegt ofbeldi getur falist í því að barni er viljandi gefinn hættuleg lyf eða annað sem skaðað getur barnið.

Kynferðislegt ofbeldi:

Kynferðislegt ofbeldi gagnvart barni felur í sér:

  • a) kynferðislega athöfn gagnvart barni eða með barni innan 15 ára aldurs með eða án vilja barnsins.
  • b) kynferðislega athöfn gagnvart eða með barni 15 ára eða eldra án vilja barnsins.
  • * Kynferðislegt ofbeldi getur falist í því að barn sé látið horfa á klámefni eða kynfæri eða teknar myndir af barni í þeim tilgangi að örva aðra kynferðislega
  • * Kynferðislegt ofbeldi getur falist í því að þuklað sé innan klæða á kynfærum barns eða barn látið þukla á kynfærum einhvers.
  • * Kynferðislegt ofbeldi getur falist í samförum við barn.

Áhættuhegðun barns:

Áhættuhegðun barns felur í sér að barn hegðar sér á einhvern hátt sem hefur skaðaðeða er líkleg t til að skaða heilsu þess og þroska.

  • * Áhættuhegðun barns getur verið neysla á áfengi eða vímuefnum eða barnið er farið að stunda afbrot.
  • * Áhættuhegðun barns getur verið þegar barn skaðar sjálft sig með því að veita sjálfu sér áverka.
  • * Áhættuhegðun barns getur verið þegar barn beitir aðra líkamlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Hver tilkynnir og hvernig ?

Eftirfarandi verklagsreglur gilda í Grunnskóla Borgarfjarðar um tilkynningar til barnaverndar:

  • a) Starfsmaður sem verður var við tilkynningarskylt atvik í starfi sínu skal láta skólastjóra vita af slíku sem allra fyrst. Í fjarveru skólastjóra skal upplýsingum komið til deildarstjóra viðkomandi deildar. Ef starfsmaður telur sig ekki geta leitað til fyrrgreindra aðila getur hann leitað til fræðslustjóra.
  • b) Gert er ráð fyrir að öllu jöfnu sé tilkynnt í nafni stofnunarinnar og að tilkynningin sé á ábyrgð hennar en ekki einstakra starfsmanna. Stofnunin nýtur ekki nafnleyndar sbr. 19. gr. barnaverndarlaganna.
  • c) Tilkynna skal til barnaverndarnefndar þar sem barn býr. Einnig er hægt að ná sambandi við barnaverndarnefnd gegnum síma 112.
  • d) Þrátt fyrir að verklag skólans geri ráð fyrir ákveðnu ferli innan stofnunar getur einstakur starfsmaður einnig tilkynnt til barnaverndarnefndar. Tilkynningin er þá frá viðkomandi starfsmanni sem nýtur ekki nafnleyndar.

Þegar tilkynnt er um vanrækslu eða áhættuhegðun barns er oftast nær um að ræða ástand sem hefur varað í lengri tíma og hefur ekki breyst nægjanlega þrátt fyrir ábendingar og leiðbeiningar starfsmanna skólans til foreldra. Í þessum tilvikum getur verið heppilegt að tilkynna málið til barnaverndarnefndar á fundi þar sem starfsmaður skóla, foreldri og barnaverndarstarfsmaður fara yfir málið. Sé það ekki unnt er málið tilkynnt til barnaverndarnefndar skriflega. Hér þarf að meta aðstæður barnsins, ástæður tilkynningar svo og vinnulag skólans og barnaverndarnefndar í hverju tilviki fyrir sig.

Ef um er að ræða grun um ofbeldi, kynferðislegt eða líkamlegt, er mikilvægt að starfsmenn skólans ræði ekki við barnið um það heldur hafi strax samband við barnaverndarnefnd. Það er síðan hlutverk barnaverndarstarfsmanna að kanna málið og ræða við barnið eftir þeim reglum sem um það gilda.

Tilkynning til barnaverndarnefndar þarf ávalt að vera rökstudd. Oft á tíðum getur verið erfitt að meta hvort um vanrækslu sé að ræða eða ekki og stundum getur verið um einhverja tilfinningu að ræða sem mikilvægt er að fá aðstoð við að skilja hvers vegna hefur vaknað. Í þessum tilvikum er unnt að hringja í viðkomandi barnaverndarnefnd og ræða tilvikið nafnlaust og í framhaldi af því taka ákvörðun um hvort tilkynna eigi um málið eða ekki.

Samskipti við foreldra

Að jafnaði skal láta foreldra vita af tilkynningunni og gera þeim grein fyrir að starfsmenn skóla séu að fylgja lagaskyldu um að tilkynna grun um vanrækslu eða ofbeldi til barna- verndarnefndar. Í samtali við foreldra þarf að koma fram að málið snúist um velferð barnsins og stuðning við það og fjölskyldu þess fremur en ásökun í þeirra garð og að markmiðið sé að leita lausna og veita viðeigandi stuðning.

Þegar grunur hefur vaknað um að barn búi við ofbeldi á heimili sínu, hvort heldur sem er líkamlegt eða kynferðislegt skal hafa beint samband við barnaverndarnefnd án þess að upplýsa foreldra um það. Ástæðan er sú að búi barn með einhverjum sem beitir ofbeldi getur verið hætta á að barnið verði beitt enn meira ofbeldi eða hótunum ef viðkomandi veit að tilkynnt hefur verið til barnaverndarnefndar. Í sumum tilvikum sæta þessi mál einnig lögreglurannsókn og mikilvægt er að meintur gerandi fái ekki tækifæri til að hafa áhrif á framburð barnsins. Komi barn með sýnilega áverka í skóla eða segi frá alvarlegu ofbeldi skal samstundis hafa samband við barnaverndarnefnd.

Upplýsingaskylda gagnvart barnaverndarnefnd

Mikilvægt er fyrir barnaverndarnefndir að eiga greiðan aðgang að nauðsynlegum upplýsingum um börn og foreldra við könnun barnaverndarmáls til að meta aðstæður barnsins. Upplýsingaskyldan gildir óháð því hvort viðkomandi stofnun hefur tilkynnt um málið til barnaverndarnefndar eða ekki. Samanber 44. gr. barnaverndarlaganna:

„Öllum heilbrigðis- og sjúkrastofnunum, þar með töldum sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmönnum, sérfræðingum sem veita félagslega þjónustu, geðdeildum, meðferðardeildum og meðferðarstofnunum fyrir áfengissjúklinga og fíkniefnaneytendur, og stofnunum sem veita félagslega þjónustu eða aðstoð, er skylt eftir að barnaverndarnefnd hefur tekið ákvörðun um könnun máls að láta nefndinni endurgjaldslaust í té upplýsingar um heilsu barns og foreldra þess, þar á meðal upplýsingar um ástand viðkomandi og batahorfur, auk annarra upplýsinga sem nefndin telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins.

Með sama hætti er öllum stofnunum og öðrum aðilum þar sem barn hefur dvalist eða kemur reglulega, svo sem skólum, dagvistarheimilum og félagsmiðstöðvum fyrir börn og unglinga, skylt að láta nefndinni í té upplýsingar sem hún telur að skipt geti máli fyrir úrlausn málsins. Þá skulu lögregla og sakaskrá ríkisins með sama hætti láta nefndinni í té upplýsingar sem þessar stofnanir búa yfir um barn og foreldra þess og varðað geta málið. Upplýsingar samkvæmt þessari grein skal veita svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en 14 dögum eftir að beiðni berst. Upplýsingaskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu einstakra starfsstétta”

Barnaverndarlög nr. 80/2002 44. gr.

Þegar beiðni um frekari upplýsingar um tiltekið mál berst Grunnskóla Borgarfjarðar, safnar skólastjóri umbeðnum göngum saman. Við slíka gagnasöfnun getur hann leitað til allra starfsmanna skólans og er þeim skylt að veita umbeðnar upplýsingar. Upplýsingar eru afhentar barnaverndarnefnd í nafni stofnunarinnar.

Nánari upplýsingar um vinnslu barnaverndarmála má finna á heimasíðu Barnaverndarstofu, www.bvs.is

(uppfært 10. janúar 2018)