Móttökuáætlun

Móttaka nýrra nemenda
Í GBF er lögð áhersla á að nemendur og foreldrar þeirra fái hlýlegar móttökur auk þess sem veittar eru greinargóðar upplýsingar um skólastarfið. Nemendur eru skráðir í skólann í gegnum Mentor. Yfirleitt koma nemendur með foreldrum sínum í heimsókn og skoða skólann. Þá eru þau kynnt fyrir starfsfólki skólans og farið yfir aðstæður þar og þeim afhentur kynningarbæklingur um skólann. Einnig er þeim kynnt fyrirkomulag skólaaksturs ef barn kemur í skólann með skólabíl. Umsjónarkennarinn ræðir komu barnsins við bekkinn og undirbýr komu þess.

Sérgreinakennarar fá upplýsingar um nýja nemandann áður en hann mætir hjá þeim í tíma. Deildarstjóri sér um að koma gögnum um nemandann til sérkennara ef þau eru einhver og tryggja þannig að hann fái þá aðstoð sem honum ber.

Nemendur sem eru ekki með íslensku sem móðurmál fá sambærilegar móttökur nema tryggt er að túlkur komi með á fundi ef þörf er á svo allar upplýsingar komist örugglega til skila. Þeir nemendur fá auk þess námsefni sem hæfir getu þeirra og skilningi á íslenskri tungu og halda umsjónarkennari og sérkennari utan um þá vinnu og boða aðila til funda eins oft og þurfa þykir til að fylgjast með framvindu mála.

Nemendur sem koma í vistun á heimili í skólahverfinu og eiga lögheimili utan sveitarfélagsins fá sömu þjónustu og aðrir nemendur. Leitast skal við að allar upplýsingar um nemandann liggi fyrir áður en skólaganga hefst svo hægt sé að mæta þörfum hans. Skólinn leggur mikið uppúr góðum samskiptum við vistunaraðila því það er lykillinn að góðum árangri.

Nemendur frá Hvanneyrardeild sem koma að Kleppjárnsreykjum í 6.bekk koma reglulega í heimsóknir að Kleppjárnsreykjum á 5. námsári sem umsjónarkennarar skipuleggja. Foreldrum þeirra er boðið til kynningar í skólann á vordögum.

5 ára nemendur sem eru í leikskólum í skólahverfinu koma reglulega í heimsóknir í þá deild GBF sem næst þeim er í skólaaðlögun. Þar taka nemendur á móti þeim og kynna þeim skólann og umhverfi hans auk þess sem þeir vinna að sameiginlegum verkefnum. Áhersla er lögð á að þeir komist í íþróttatíma auk almennra kennslustunda. Samstarfssamninga GBF við leikskóla svæðisins má sjá á heimasíðu skólans.

Í einni heimsókn þeirra er foreldrum boðið til kynningar í skólann og þeir kynntir fyrir starfsfólki skólans og þeim afhentur kynningarbæklingur um skólann.

Auk þessa eru allir foreldrar boðaðir á skólasetningu að hausti og þar fer umsjónarkennari yfir fyrirkomulag skólastarfsins þann veturinn. Þá eru bekkjarfulltrúar kosnir og tækifæri gefst til að kynnast og skipuleggja frekara samstarf.

Þá er þeim foreldrum sem eru háskólanemar og ekki haft tök á að koma á kynningar í skólanum boðin sérstök kynning á skólanum í sínum háskóla.

Foreldrar eru boðaðir í viðtöl tvisvar á vetri.

Móttaka nýrra starfsmanna
Þegar nýr starfsmaður tekur til starfa fær hann kynningu á þeim atriðum sem varða vinnustaðinn og starfsemi hans.

Skólastjóri

  • Tekur á móti nýjum starfsmanni og gerir við hann ráðningasamning.
  • Sýnir starfsmanni húsakynni skólans.
  • Kynnir stefnu skólans.
  • Sér um að nýr starfsmaður undirriti yfirlýsingu um trúnað og þagnarskyldu.

Aðstoðarskólastjóri eða deildarstjóri

  • Veitir nýjum starfsmanni upplýsingar um vinnureglur, vinnufyrirkomulag, vinnutíma og starfsmannafundi.
  • Fer yfir starfslýsingu og hæfniskröfur starfsins.
  • Kynnir starfsmanni hvaða gögn hann þarf að kynna sér og hvar hann getur nálgast þær upplýsingar t.d. á heimasíðu skólans.
  • Kynnir starfsmanni fyrir teymisfélaga sem tekur að sér að vera starfsmanni innan handar.

Ritari 

  • Sér til þess að nýr starfsmaður fái netfang og aðgang að tölvukerfi skólans.
  • Kynnir tölvukerfi skólans, tölvupóst, geymslu gagna og prentunarmáta.

Teymið sem starfsmaðurinn starfar með

  • Er nýjum starfsmanni innan handars varðandi þætti sem kunna að vekja spurningar eða hann þarf aðstoð við.
  • Aðstoðar starfsmann við vinnslu í Mentor.

Trúnaðarmaður

  • Kynnir stéttarfélag sem við á.
  • Önnur mál er varða stéttarfélög.

Nýir kennarar, byrjendur í kennslu, fá leiðsögn frá Fjólu Benediktsdóttur verkefnastjóra fyrsta árið en aðrir nýir starfsmenn eru undir handleiðslu aðstoðarskólastjóra. Gert er ráð fyrir að nýir starfsmenn fái viðtal eftir einn mánuð í starfi og þá er farið yfir hvernig aðlögun að vinnustaðnum gengur.

(uppfært 27. september 2021)