Viðverustefna Grunnskóla Borgarfjarðar

Tilgangur viðverustefnu er sá að allir starfsmenn og stjórnendur hafi skýra og ákveðna verkferla
í kringum tilkynningar, skráningar og viðbrögð við fjarvistum. Markmiðið er að bæta hag
starfsmanna með aukinni vellíðan og heilbrigðu vinnuumhverfi sem skapi eftirsóknarverðan
vinnustað.

Viðverutími:
Kennarar mæta til starfa kl 8:00 nema um annað hafi verið samið í vinnumatssamtali við
viðkomandi kennara.

Stuðningsfulltrúar mæta til starfa kl 8:00 og vinna þann tíma sem kveður á um í þeirra
ráðningarsamningi.

Starfsfólk í mötuneyti mætir til starfa kl 8:00

Skólaliðar mæta til starfa kl 8:15 nema ef hann er einnig gæslumaður í skólabíl þá mætir hann 5
mínútum áður en skólabíllinn fer af stað.

Mikilvægt er að allir virði viðverutíma sinn og mæti stundvíslega til starfa.

Veikinda- og forfallatilkynningar
Veikindi/forföll skal starfsmaður tilkynna til deildarstjóra viðkomandi deildar með símhringingu
eða sms við fyrsta tækifæri. Einnig þarf deildarstjóri að vita sem fyrst hvort líkur séu á
áframhaldandi veikindum og þá hvenær viðkomandi starfsmaður telur sig geta mætt aftur til
starfa.

Eins og segir í kjarasamningi ákveður yfirmaður hvort læknisvottorðs skuli krafist.

Umhyggja fyrir starfsfólki:
Mikilvægt er að deildarstjóri/skólastjóri hafi samband við starfsmann í veikindum til að athuga
með líðan hans og sýna umhyggju. Í því samtali er starfsmaður hvattur til að hafa samband við
vinnustaðinn ef um langvarandi veikindi er að ræða t.d. með því að mæta á viðburði í skólanum
eða á starfsmannafundi.

Endurtekin veikindi/forföll – viðverusamtal
Starfsmaður sem er oftar en 5x á 3ja mánaða tímabili frá vinnu vegna veikinda/forfalla er
boðaður til svokallaðs viðverusamtals. Tilgangur slíks samtals er fyrst og fremst hugsaður til að
skapa formlegan vettvang þar sem farið er yfir stöðu fjarvista starfsmanns, ástæður þeirra og
aðstæður á vinnustað sem gætu haft áhrif á fjarvistirnar.

Mikilvægt er að undirbúa slíkt samtal vel og boða með góðum fyrirvara. Viðverusamtal skal
alltaf byggjast á jafnræðisgrunni þar sem málin eru rædd á opinskáan hátt. Starfsmanni ber ekki
skylda til að gefa vinnuveitanda upplýsingar um persónuleg eða heilsutengd mál, en fjarvera
hans hefur áhrif á vinnustaðinn og hana þarf að ræða.

Markmiðið er að sýna umhyggju og finna leiðir til að aðstoða viðkomandi ef hægt er.

Samtalið skal byggja á skráðum tölulegum upplýsingum um fjarvistir úr Mentor.

Í lok samtals skal liggja fyrir áætlun sem hægt er að vinna eftir og báðir aðilar eru sáttir við.

Viðverusamtöl eru trúnaðarsamtöl en starfsmaður getur óskað eftir því að trúnaðarmaður hans
sitji fundinn.

Langtímaveikindi
Ef veikindi vara lengur en 4 vikur teljast þau langtímaveikindi.

Mikilvægt er að deildarstjóri hafi reglulega – eigi sjaldnar en mánaðarlega-samband við
starfsmann í langtímaveikindum og haldi góðu sambandi við hann. Einnig skal honum boðið á
viðburði í skólanum og hann hvattur til heimsókna eins og hann hefur heilsu til.

Skammtímafjarvera og tíðar fjarvistir
Til skammtíma fjarveru telst öll fjarvera sem varir skemur en 4 vikur. Tíðar fjarvistir tejast
endurteknar skammtímafjarvistir sem eru t.d. 4 skipti eða fleiri á hverju tveggja mánaða
tímabili.

Aðrar fjarvistir – tilkynning
Við fyrsta tækifæri skulu starfsmenn óska eftir leyfi hjá yfirmanni sínum vegna annarra fjarvista
en veikinda, svo sem vegna umönnunar aldraðra, jarðarfara, læknisheimsókna eða heimsókna í
skóla barna sinna, einnig vegna óska um launalaust leyfi frí og fl. Tilkynnt skal um upphafstíma
og áætlaða endurkomu. Ef um bráðatilfelli er að ræða skal tilkynna það símleiðis ( ekki SMS né
tölvupósti ef hjá því er komist ) til skólastjórnenda.

Endurkoma til vinnu – vinnuaðlögun.
Áður en starfsmaður kemur aftur til starfa eftir langtímaveikindi skal hann boðaður til samtals
við skólastjóra þar sem farið er yfir stöðuna og áætlun gerð um endurkomu hans til vinnu.

Mikilvægt er að ræða hvort þörf er á stuðningi við starfsmanninn og hvernig skuli brugðist við
ef gera þarf breytingar á verkefnum, vinnuframlagi eða vinnuaðstöðu. Þegar veikindi leiða til
skertrar starfsgetu skal reynt að koma til móts við þarfir starfsmanns með skertu starfshlutfalli á
móti veikindalaunum. Nauðsynlegt er að hafa slíkan samning skriflegan og tímabundinn.

Starfsmanni getur verið bent á að leita til ráðgjafa í endurhæfingu til frekari greiningar og
stuðnings við endurkomuferlið.

Samkvæmt kjarasamningum flestra stéttarfélaga getur vinnuveitandi óskað eftir
starfshæfnivottorði.

 

Samþykkt á starfsmannafundi Grunnskóla Borgarfjarðar í mars 2017