“Living and learning in natural and green environment”
Grunnskóli Borgarfjarðar er þátttakandi ásamt fimm öðrum skólum í Evrópu í verkefninu 2021-1-LV01-KA220-SCH-000024421 á vegum Erasmus+.
Skólinn hefur til margra ára lagt sig fram um að vera í fjölbreyttu samstarfi til að víkka sjóndeildarhring og skilning nemenda á þeim verkefnum sem við stöndum frammi fyrir ásamt því að tengjast jafnöldrum í öðrum löndum. Það var því gleðilegt þegar við fengum samþykki um að vera þátttakendur í þessu verkefni í samstarfi við skóla í Lettlandi (sem er upphafsland verkefnisins), Rúmeníu, Spáni, Tékklandi og Portúgal.
Megin áhersla verkefnisins er að kynnast því sem unnið er að í skólunum á vettvangi sjálfbærni til að auka skilning á hlutverki okkar á aðgerðum til sjálfbærni. Að auki veitir verkefnið nemendum og kennurum tækifæri á að kynnast skólastarfi og menningu viðkomandi landa og öðlast reynslu með jafnöldrum við mismunandi náttúrulegar aðstæður. Þetta er ekki fyrsta verkefnið sem skólinn hefur tekið þátt í en á undanförnum árum hefur skólinn verið í samstarfi við skóla á Norðurlöndum og Eystrasaltslöndum á sama vettvangi í samvinnu við Nordplus junior. Má þar nefna verkefni þar sem unnið var að skilningi á mismunandi menningu og lífsreynslu unglinga á norðurslóðum Evrópu og verkefni um innleiðingu heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna.
Aðalmarkmið verkefnisins „Living and learning in natural and green Environment“ er að upplifa og öðlast sameiginlegan skilning á grænni hugsun og þeim verkefnum sem bíða okkar. Nemendur fá tækifæri til að sjá margbreytileika náttúrunnar og þær áskoranir sem hver og einn staður þarf að vinna að. Einnig fara nemendur til baka með reynslu og skilning sem þeir geta komið á framfæri við jafnaldra sína og skólafélaga. Þessi reynsla byggist á heimsóknum til hinna skólanna, kynning á nærumhverfi þeirra og verkefnavinna í skólunum sem og í heimsóknunum. Unnið er með endurvinnslu, rannsóknir á lífríki, orku, vatni og því sem tengir okkur ekki síður en það sem er ólíkt á milli þátttökuskólanna. Þannig viljum við vinna að því að gera nemendur okkar meðvitaða og gefa þeim tæki til að taka upplýstar ákvarðanir í framtíðinni er varða sjálfbærni og umhyggju fyrir náttúrunni.
Þátttöku skólarnir í verkefninu auk Grunnskóla Borgarfjarðar eru:
Aizupes pamatskola, Jelgavas, Lettlandi: www.facebook.com/aizupespamatskola
Aurel Vlaicu Secondary School, Rúmenía: http://www.scoala-aurelvlaicu.ro/
IES Las Marinas, Spánn: http://www.ieslasmarinas.es/
Zakladni skola a materska skola, Tékklandi: http://www.zsks.cz/
Agrupamento de Escolas António Feijó, Portúgal: http://www.agvaf.edu.pt/