Eins og fram hefur komið þá var þema árshátíðar yngsta og miðstigs Kleppjárnsreykjadeildar að þessu sinni mannréttindi með sérstaka áherslu á réttindi barna. Í undirbúningi árshátíðarinnar kom fram sú hugmynd að skora á sveitarstjórn Borgarbyggðar að innleiða formlega Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Í gær var Gunnlaugi A. Júlíussyni sveitarstjóra, Halldóru Lóu Þorvaldsdóttur og Lilju B. Ágústsdóttur fulltrúum sveitarstjórnar afhent áskorunin við stutta athöfn í matsal skólans. Nemendur sungu lagið Imagine eftir John Lennon við íslenskan texta Þórarins Eldjárn, Kristín Eir Hauksdóttir flutti stutt ávarp og að lokum afhenti Soffía S. Isabella Björnsdóttir sveitarstjóra áskorunina.
Gunnlaugur sveitarstjóri þakkaði nemendum kærlega fyrir og vonaðist til að nú yrði farið í markvissa vinnu við að fara yfir hvernig réttindi barna eru tryggð í sveitarfélaginu.