Árshátíð Kleppjárnsreykjadeildar

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

15. mars var haldin árshátíð Kleppjárnsreykjadeildar þar sem nemendur yngsta- mið og unglingastigs stóðu fyrir dagskrá. Yngsta stigið söng þrjú lög, Er ég verð stór úr söngleiknum Matthildi, Í síðasta skipti með Friðriki Dór og loks dönsum eins og hálfvitar, einnig með Friðriki Dór. Þau hrifu áhorfendur með sér og myndaðist mikil stemming. Miðstigi sýndi leikrit um úlfa í sínum fjölbreyttustu myndum. Verkið byggði á þjóðsögum og gömlum sögum með vísanir í nútímann. Eftir hlé sýndi unglingastigið leikritið Shrek sem byggði á fyrstu tveimur teiknimyndunum um hinn geðstirða tröllkarl. Nemendur deildarinnar stóðu sig mjög vel og lögðu mikið á sig svo árshátíðin yrði sem glæsilegust. Til viðbótar við leikstörfin voru margir nemendur sem sinntu búninga- og leikmunagerð og stóðu sig mjög vel í þeirri vinnu. Það var mjög ánægjulegt að ná loks að standa fyrir stórum viðburði þar sem foreldrar og aðstandendur fá tækifæri til að sjá afraksturinn, en líka að vinna með nemendum að verkefnum sem eru frábrugðin hefðbundnu skólastarfi. Það er ekki síður nám sem felst í því að móta karakter, útbúa leikmuni eða finna út hvernig best sé að stjórna ljósum.