Ávaxtakarfan

Grunnskóli Borgarfjarðar Vefumsjón Fréttir

Árshátíð GBF Varmalandi var haldin þann 7. apríl s.l. með pompi og prakt þrátt fyrir að inflúensan væri búin að ná í skottið á nokkrum nemendum og kennurum. Því miður er það bara þannig að “the show must go on”. Nemendur yngsta stigs völdu að setja upp söngleikritið Ávaxtakörfuna eftir Kristlaugu Maríu Sigurðardóttir. Mið- og unglingastigi var boðið að vera með í uppsetningunni sem þau þáðu. Byrjað var á að athuga áhuga nemenda á því hvaða hlutverk þeim langaði að leika og síðan var farið að huga að leikmynd og búningum. Búningar voru fengnir að láni vestan af Snæfellsnesi þar sem leikritið var sett upp fyrir tveimur árum. Við erum Grænfánaskóli og hugum vel að endurnýtingu. Þeir búningar sem upp á vantaði voru svo hannaðir og saumaðir af nemendum og kennurum ásamt leikmyndinni. Nemendur unglingadeildar útfærðu leikskrá og boðsmiða sem nemendur fóru svo með heim og dreifðu til vina og nágranna. 

Eftir stífar æfingar kom svo að stóra deginum og mátti finna hvað spennustigið var orðið hátt. Árshátíðardagur er tvöfaldur dagur og nemendur því í skóla frá 8:20 og þar til sýningu lýkur. Ýmislegt var gert til gamans eftir rennsli fram að sýningu m.a. farið út í gömlu góðu leikina hlaupa í skarðið, köttur og mús og fleiri góða leiki. Einnig var boðið upp á mjólk og skúffuköku í miðdegishressingu. Síðan fóru nemendur að gera sig klára fyrir aðalsýninguna, fara í búninga, láta mála á sig ávextina og fara yfir textann sinn einu sinni að lokum til öryggis. 

Gaman var að sjá hvað margir voru mættir í salinn þegar nemendur opnuðu árshátíðina með því að syngja lagið Góðan dag á íslensku og á íslensku táknmáli. Síðan hófst sjálft leikverkið og var það í 8 atriðum hvorki meira né minna. Nemendur unnu hvern leiksigurinn á eftir öðrum en þó mest um vert að hver og einn sigraði sjálfan sig. Það er svo dýrmæt reynsla að leika og syngja fyrir framan stóran hóp af áheyrendum.  

Að lokum bauð unglingadeildin upp á kaffihlaðborð til styrktar ferðasjóðs 10. bekkjar og þar var ekki komið að tómum kofanum. Ekki var annað að heyra á leikhúsgestum en að vel hefði til tekist á allan hátt.