Dagur íslenskrar tungu

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Á Degi íslenskrar tungu, skálmuðu nemendur Hvanneyrardeildar í leikskólann Andabæ þar sem þau bæði hlýddu á söng nemenda í Andabæ og launuðu síðan jafnframt fyrir sig og sungu fyrir þau. Tekið var fyrir lagið „Þannig týnist tíminn“ eftir Bjartmar Guðlaugsson, en kennarar hafa undanfarið leiðbeint nemendum með styrkri hendi og kennt þeim textann og sönginn, í byrjendalæsinu. Eftir það lá leið þeirra í Landbúnaðarháskólann þar sem þau sungu fyrir starfsfólkið og fengu piparkökur og endurskinsmerki í þakkarskyni. Það verður að segjast að nemendurnir stóðu sig afbragðs vel, sungu eins og vel þjálfaður kór og var gerður góður rómur að á báðum stöðum.

Það er hefð í skólastarfi GBf að nemendur úr 7.bekk á Varmalandi og Kleppjárnsreykjum og 5.bekk á Hvanneyri fari í Brún og lesi fyrir eldri borgara í uppsveitum Borgarfjarðar á degi íslenskrar tungu.

Að þessu sinni voru það þau Ágúst Helgi, Soffía Sigurbjörg, Adda Karen, Sesselja, Bergdís Ingunn og Egill Árni sem fóru og lásu ljóð, gátur og frumsaminn texta við mikinn fögnuð áheyrenda. Að lokum þáðu þau veitingar í boði félagsmanna.