Heilir og sælir kæru foreldrar og forráðamenn!
Það ber svo við um þessar mundir að valgreiðslukrafa Foreldrafélags Gbf fer í loftið. Þá er ekki úr vegi að við í stjórninni látum heyra frá okkur til að segja ykkur hvað er á döfinni. Eins og þið vitið var í fyrsta skipti í fyrra sem árgjald af þessu tagi var sent út. Heimtur voru með ágætum og er það gleðilegt. Þannig er hægt að skapa fjárhagslegan grunn til að geta framkvæmt hin ýmsu skemmtilegu verkefni í þágu barna og foreldra skólans. Hugmyndir og fyrirspurnir um hvað eigi að gera við peningana sem Frúin í Hamborg gaf okkur eru margar og eins og gefur að skilja verður erfitt að framkvæma allt.
Það sem stjórnin sér helst fyrir sér er meðal annars að efla almennan skólaanda og hrista saman nemendur allra deilda með skemmtilegum viðburðum þar sem þið foreldrar fáið að vera með í að skipuleggja og taka þátt í fjörinu. Hér erum við að tala um að hópar innan skólanna hittist ásamt foreldrum og eyði hluta úr degi saman. T.d farið í ratleiki eða göngur í fallegu umhverfi héraðsins, sund eða grill. Það þarf hvorki að vera flókið né dýrt. Eldri nemendur gætu farið í lengri göngur, upp á hin fjölmörgu fjöll, fell eða borgir sem kleif eru í Borgarbyggð. Hér munu bekkjartenglarnir koma sterkir inn við skipulagninu. Við vinnslu skóladagatals næsta árs höfum við fengið að setja inn fasta viðburði í þessum tilgangi. Þó ekki sé búið að ákveða nákvæmlega áfangastaðinn, þá getur fólk í það minnsta skipulagt sig og sett dagana inn í áætlanir fjölskyldunnar. Það eru uppi hugmyndir um að hefja slíka viðburði þegar nú á vormánuðum. Allt slíkt verður þó að gera í samvinnu við veðurguði til að veður sé innan skynsemismarka á tilteknum degi. Þetta getur orðið mjög gaman ef áhugi er fyrir hendi á að skapa skemmtilegar hefðir innan skólans.
Einnig stendur hugur okkar til að geta boðið upp á fjölbreytta fyrirlestra fagfólks, hvort sem er fyrir foreldra eða starfsfólks skólans. Með samvinnu við önnur foreldrafélög á svæðinu væri líka hægt að gera enn meira af slíku. Í viðhengi í þessum pósti er einmitt auglýsing vegna fyrirlesturs um netmál barna sem Foreldrafélag Grunnskólans í Borgarnesi stendur fyrir kl 18.00 fimmtudaginn 22.mars í Grunnskóla Borgarness. Börnin eru boðin velkomin með, pizzur verða að loknum fundi. Þess vegna þarf að láta vita um mætingu og taka fram fjölda og frá hvaða skóla verið er að koma: stjornforeldrafelagsgb@gmail.com.
Það er margt framundan ef við höldum áfram að efla foreldrafélagið á ýmsa lund.
Með fyrirfram þökk um áframhaldandi gott samstarf, kveðja Sigrún, Dóra, Kristín og Helga.