Sumarið er loksins mætt á svæðið skv. dagatalinu allavega og vonandi verður veðrið okkur hliðstætt út skólaárið.
Nemendur á yngsta stigi á Varmalandi hafa síðustu vikur unnið með mannslíkamann í Byrjendalæsi samþætt við aðrar námsgreinar. Lauk þeirri vinnu með lokaafurð nemenda. Sem okkur fannst tilvalið að nýta einnig sem sumargjöf handa foreldrum, öfum/ömmum eða öðrum sem stóðu nemendum næst í hjartanu. Nemendahópnum á miðstigi var einnig boðin þátttaka í verkefninu sem þau þáðu alsæl. Það var dásamlegt að sjá áhuga og virkni allra þar sem einbeiting nemenda var áþreifanleg. Fyrirmælin voru að mála hjarta og setja á það eitthvað sem stóð hjarta þeirra nærri, annaðhvort með því að líma mynd og skreyta eða hvað sem þau vildu. Afraksturinn var DÁSAMLEGUR eins og sjá má á meðfylgjandi myndum og fóru nemendur og kennarar þeirra með sól í hjarta úr skólanum þennan síðasta dag vetrar og tilbúnir að taka á móti sumrinu.