Leiksýningar unglingadeilda

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Nemendur 8.-10. bekkjar Varmalands- og Kleppjárnsreykjadeildar settu upp árshátíðarleiksýningar þann 4. apríl síðastliðin. Að þessu sinni var skólinn þátttakandi í Þjóðleik en Þjóðleikur er leiklistarverkefni fyrir ungt fólk sem haldið er annað hvert ár á vegum Þjóðleikhússins. Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk fyrir 13-20 ára leikara sem svo eru sett upp í hinum ýmsu byggðum landsins.

Í upphafi vetrar fóru, Rene Bredtoft Madsen og Þóra Geirlaug Bjartmarsdóttir, kennarar við skólann á námskeið hjá Þjóðleikhúsinu og stýrðu þau vinnunni og héldu utan um hópinn. Þröstur Guðbjartsson leikstjóri var ráðinn til að koma að vinnunni en milli þess sem hann kom æfðu nemendur undir stjórn kennara. Verkefnið var m.a. styrkt af Ungmennafélagi Stafholtstungna og foreldrafélagi Grunnskóla Borgarfjarðar og kunnum við þeim kærar þakkir fyrir.

Sett voru upp tvö leikrit. Leikhópur á Varmalandi sýndi leikritið Tjaldið eftir Hallgrím Helgason í Þinghamri. Leikhópurinn á Kleppjárnsreykjum sýndi leikritið Eftirlífið eftir Sigtrygg Magnason í Logalandi. Lagt var upp með að virkja alla nemendur og unnu þeir nemendur sem ekki stóðu á sviðinu sjálfu í tæknimálu, sviðsmynd, förðun og fleiru. Sýningarnar þóttu takast mjög vel og vakti það athygli sýningargesta hve vel krakkarnir skiluðu verkinu. Sýningarnar tóku báðar á viðkvæmum málefnum og lærðu krakkarnir mikið á ferlinu auk þess sem þau komu sjálfum sér og áhorfendum skemmtilega á óvart með leiklistarhæfileikum sínum.