Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Lokahátíð Stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi fór fram í Laugargerðisskóla fimmtudaginn 18. mars síðastliðinn. Þar komu  saman keppendur frá Heiðarskóla í Hvalfjarðarsveit, Grunnskólanum í Borgarnesi, Grunnskóla Borgarfjarðar, Laugargerðisskóla og Auðarskóla í Búðardal. Dómnefndina skipuðu Jón Hjartarson fulltrúi Radda, Brandís Margrét Hauksdóttir og Halla Guðmundsdóttir.  Raddir hafa haldið keppnina nú í 25 ár og er þetta í síðasta sinn sem þeir sjá um að halda þessa keppni. Það kom fram í máli Jóns að vonandi myndu skólaskrifstofur landsins og skólarnir sjálfir halda þessu góða starfi áfram. 

Það var flottur hópur nemenda sem las upp úr bókinni Kennarinn sem hvarf eftir Bergrúnu Írisi Sævarsdóttur og ljóð eftir Kristján frá Djúpalæk. Auk þess fluttu þátttakendur ljóð að eigin vali.  Fyrstu þrjú sætin hrepptu þau Aldís Tara Ísaksdóttir Heiðarskóla, Þorsteinn Logi Þórðarson Grunnskólanum í Borgarnesi og Steinunn Bjarnveig Blöndal Grunnskóla Borgarfjarðar.