Seinni smiðjuhelgi vetrarins var haldin á Varmalandi 5.- 6. apríl síðastliðinn. Þar komu saman nemendur 8.-10. bekkjar Grunnskóla Borgarfjarðar, Auðarskóla, Reykhólaskóla og Laugargerðisskóla. Boðið var upp á Körfuboltasmiðju, glímusmiðju, Nýsköpunar og legósmiðju, tálgunar- og útismiðju, matreiðslusmiðju með ítölsku þema og brids- og spilasmiðja. Það var líf og fjör á smiðjuhelgi eins og sá má á þessum myndum.
Útismiðja í umsjón Ásu Erlingsdóttur.
Áhersla var lögð á ýmis verkefni tengt útivist og útiveru í skógi. Farið yfir hvernig eldiviður er unninn/klofinn og undirbúinn fyrir þurrkun, fræðst um útieldun, farið í leiki og kennd grunnatriði í tálgun.
Brids og ýmis borðspil í umsjón Stefáns Jónssonar og Ingimundar Jónssonar
Bridds – farið yfir undirstöðuatriði í Standard sagnkerfi og æfingar í að spila úr. Borðspil- Veltum aðeins fyrir okkur hvað sé spil, hvers vegna við spilum, hvað er gangverk og þema, hvernig gagnast spil í daglegu lífi. Svo var boðið upp á kennslu í ýmsum spilum
Matarsmiðja í umsjón Helenu Hinriksdóttur
Í þessari smiðju elduðu nemendur kvöldmat og hádegismat fyrir aðra nemendur á smiðjunni auk þess að spreyta sig á sér ítölskum matarhefðum í eldhúsinu. Maturinn var mjög góður og sáu nemendur til þess að enginn varð svangur á smiðjuhelgi.
Glímusmiðja í umsjón Jönu Lind Erlendsdóttur og Heiðrúnar Fjólu Pálsdóttur.
Smiðjan var blanda af í glímu, leikjum tengdum ýmsum fangbrögðum, Backhold (skoskt fangbragð) og fleiri fangbrögð, einnig var létt fræðsla um glímu og önnur fangbrögð.
Nýsköpunar og legósmiðja í umsjón Jóhanns Breiðfjörð
Jóhann mætti með um 100 kíló af tækni-LEGO-kubbum og fengu nemendur að njóta sín við hönnun og smíði úr þeim. Þeir lærðu m.a. að nota tannhjól, gírun, mótora og fleira og fengu aðstoð við að skapa sín eigin módel.
Körfuboltasmiðjan var í umsjón Jóns Hrafns Baldvinssonar.
Í körfuboltasmiðju var blanda af leik og æfingum fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Nemendur sýndu snilldartakta í hinum ýmsu tækniæfingum og skemmtu sér konunglega.