Stærðfræðiþema

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Á mánudag og þriðjudag í liðinni viku voru þemadagar hjá Grunnskóla Borgarfjarðar þar sem aðalþemað var Stærðfræði og koma myndir af afrekstri nemenda á eftir texta frá hverri deild. Á Kleppjárnsreykjum var unnið með sex stöðvar þar sem nemendum var skipt þvert á aldur. Hver hópur fór á allar stöðvarnar. Stöðvarnar voru útistærðfræði, að útbúa 20 fermetra herbergi úr IKEA fyrir 200 þúsund, fuglahúsa smíði, farið yfir rekstrarkostnað fjölskyldu og búðarleikur, þrautalausnir og að lokum þurftu nemendur að mæla skólann upp í lengd og breidd. 

Á Hvanneyri var unnið á 4 til 5 stöðvum, það var búðarleikur sem fólst í því að raða upp vörum í búðina og verðmerkja og nemendur voru líka að leita í netverslun hvað svona vörur kostuðu í rauninni. Seinni daginn fengu þau svo versla í búðinni. Einnig var minecraft stöð þar sem nemendur áttu að búa til sinn heim eftir ákveðnum fyrirmælum, spil og sudoku stöð og seinni daginn breyttist sú stöð í netverslun og nemendur fengu ákveðna upphæð til að versla fyrir. Það var mismunandi upphæð eftir bekkjum. 1.-2.bekkur máttu kaupa dót og áttu að teikna af því mynd og skrifa verðið, 3.bekkur var með gjafir handa foreldrum fyrir ákveðna upphæð og 4. – 5.bekkur átti að halda matarboð fyrir 4 manna fjölskyldu þar sem þau þurftu að ákveða hvað væri í matinn og finna út hvað það kostaði og kaupa gjöf handa foreldrunum.

Á Varmalandi vann yngsta  stigið allskyns byggingar með Legó-kubbum og færðu þær svo inn í Minecraft. Þar skráðu þau inn ýmsar tölulegar upplýsingar um fjölda kubba, gerð þeirra og lit. Mið- og unglingastigið vann saman í hópum að 8 -10 mínútna myndböndum tengdum reikniaðgerðunum fjórum auk nokkurra stærðfræðihugtaka. Þar átti að koma fram skilgreining, útskýring og leikþáttur þar sem notkun í daglegu lífi var leikin.