Sultugerð á Hvanneyri og gjafastuð

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Við hér á Hvanneyrardeild datt í hug að þjálfa okkur upp í að gefa með okkur og því þótti okkur þjóðráð að færa okkar virðulegu eldri borgurum staðarins eitthvað. Við fengum rabbabara frá einum umsjónakennaranum sem við brytjuðum niður, suðum ásamt jarðarberjum og settum í krukkur. Einnig skunduðum við í berjamó í einni útikennslunni og tíndum þau ber sem við fundum, en það voru blá, kræki, sól og rifsber sem við suðum saman og settum einnig á krukkur. Síðan skreyttum við þær, merktum, skiptum okkur í tvo hópa og spásseruðum á milli húsa hér á Hvanneyri og afhentum. Það voru þó nokkrir sem við náðum ekki að hitta á, því fólk var að heiman, en þá skildum við fenginn eftir fyrir utan, en þeir sem voru heima voru kampakátir og tóku sendingunni fagnandi. Við vorum töluvert hróðug með dagsverkið og vonum náttúrlega að sulturnar smakkist vel og komi að góðum notum.