Þemadagar

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Þemadagar voru haldnir í Grunnskóla Borgarfjarðar í liðinni viku. Yfirþema verkefnanna voru þróunarverkefni skólans Grænfáni, Heilsuefling, Leiðtoginn í mér og Réttindaskólinn.

Á Hvanneyri var ákveðið að tvinna saman ýmsa þætti í starfinu og vinna verkefni þeim tengdum. Svo sem grænfánanum, nærumhverfinu, samstarf við Landbúnaðarháskólann og Barnasáttmálann. Á þriðjudeginum var farið á Landbúnaðarsafnið og fengin fræðsla frá Tótu landverði um friðland fugla og af hverju Hvanneyri er friðland. Einnig fræddi hún nemendur um þá fugla sem búa á svæðinu.  Á miðvikudaginn var farið að tína rusl en það var hugmynd sem nemendur komu með. Þó nokkuð safnaðist í poka og var mikil ánægja með árangurinn.

Á fimmtudaginn var lögð lokahönd á þemadaga. Dagurinn byrjaði á fræðslu um kindur og kýr. Nemendur í 1.-3. bekk fóru svo í heimsókn í fjósið þar sem vel var tekið á móti þeim, fengin fræðsla og svo fengu nemendur að smakka mjólk beint úr kúnni. Nemendur í 4.-5. bekk fóru í heimsókn til Hörpu dýralæknis en höfðu Hvanneyringar fengið veður af því að hún ætti afbrigðilegan búfénað sem hún var að sýna nemendum Landbúnaðarháskólans og töldum við kjörið að athuga hvort hún hefði tök á að taka á móti nemendum Hvanneyrardeildar. Það var vel tekið í það og fræddi Harpa nemendur meðal annars um kíklópa og vatnshöfuð. Nemendur fengu að þukla og þreifa lungu og önnur líffæri. Sturluð staðreynd! Nautgripir eru eina húsdýrið með hjartabein!

Á Kleppjárnsreykjum var unnið með fjölbreytt verkefni á hverju stigi fyrir sig. En á fimmtudeginum unnu nemendur af öllum stigum saman að vandamálalausnum í anda góðverkasafns. Hópar voru myndaðir þvert á aldur og komu þau með lausnir á vandamálum bæði í þeirra nærumhverfi og heiminum öllum. Meðal afrakstursins voru nýjar merkingar í matsal sem voru þýddar á fleiri tungumál, hugmyndir um hvernig hægt væri að leysa troðning í matsal, leiðir til að koma í veg fyrir dónalegt orðbragð, könnun á því hvernig nemendur sjá fyrir sér að gera námið áhugaverðara og margt fleira. Samstarfið gekk mjög vel og einkenndist af virðingu nemenda fyrir hugmyndum hvors annars þar sem allir fengu að njóta sín.

Á Varmalandi vann 1. – 7. bekkur að sameiginlegum verkefnum og unglingastigið sér.
Yngri nemendur unnu saman að fjölbreyttum verkefnum sem tengdust farleiðum dýra. Þar sem þeir kynntu sér farleiðir mismunandi dýra, útbjuggu myndir og kort sem lýsa dýrunum og ferðalagi þeirra um heiminn. Fengu fræðslu og kynntu sér margbreytileika náttúrunnar. Þau verkefni verða einnig til sýnis á foreldradeginum.
Á unglingastiginu fengu nemendur að taka þátt í að mynda og ákveða sitt þema fyrir þemadaga. Við nýttum tímann síðastliðnar tvær vikur til að velta upp hugmyndum og ræða hvað gæti verið áhugavert að vinna að. Fyrsta ákvörðunin var að útiloka ritaðar lausnir á því verkefni sem yrði fyrir valinu. Nemendur yrðu að læra um, skilja og gera. Yfirmarkmið var síðan að geta tengt sitt þemaverkefni við Grænfánavinnu, Leiðtogann í mér, loftslagsmálin eða náttúrunni á einhvern hátt. Eftir að umfjöllun og hugmyndavinnu var lokið ákváðu nemendur hvers konar verkefni þeir myndu vinna þessa þrjá daga. Niðurstaðan varð því mjög fjölbreytt en féll svo sannarlega að markmiðum þemadaganna. Útbúnir voru hvirfilbylir, búgarðar, leirmunir, eldfjöll/eldgos og jafnvægislistaverk í anda umhverfis og náttúru, bæði af einstaklingum og hópum sem verða til sýnis á foreldradeginum nk. fimmtudag.
“Living and Learning in Natural and Green Environment“. Erasmus+, 2021-1-LV01-KA220-SCH-000024421