Í byrjun október voru þemadagar í GBF. Á Hvanneyri unnu nemendur með Leiðtogann í mér sem fléttað var saman við grænfánann. Leiðtogatré voru unnin í verkefnabækur, nemendur skrifuðu hvað það væri sem léti þeim líða vel og lærðu á word í leiðinni, samin var saga um venju í book creator og nemendur sömdu náttúruljóð. Verkefni voru fjölbreytt og skemmtileg og var gaman að sjá afrakstur nemenda. Á Kleppjárnsreykjum unnu yngsta og miðstigið saman að þema þar sem útbúið var líkan af Borgarbyggð ásamt því að vinna veggspjöld um nærumhverfið, dýr, merka staði o.fl. Á Varmalandi unnu nemendur yngsta og miðstigs verkefni sem tengdust nærumhverfinu, skoðuðu lífríki náttúrunnar við skólann og voru þemaverkefnin fjölbreytt og skemmtileg. Yngsta stigið lauk sinni vinnu á því að bjóða öllum nemendum skólans á kynningu með tilheyrandi veitingum og leikjum. Á unglingastigum á Kleppjárnsreykjum og Varmalandi var unnið með þemað Titanic frá ýmsum sjónarhornum og var gaman að fylgjast með hvernig nemendur völdu að skila verkefnum sínum á ólíkan hátt eftir sínum eigin styrkleikum. Sumir máluðu málverk, útbjuggu dúkkulísur, aðrir unnu verkefnin í umhverfi tölvuleika enn aðrir tóku upp myndbönd og svo mætti áfram telja.