Þorrablót á Kleppjárnsreykjum

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Miðvikudaginn 30.janúar var Þorrinn haldinn hátíðlegur á Kleppjárnsreykjum. Boðið var upp á veglegt þorrahlaðborð og fengu nemendur í 2. og 3. bekk það verkefni að útbúa merkingar fyrir allan þann mat sem í boði var.

Nemendur á yngsta- og miðstigi héldu sameiginlegt þorrablót þar sem Símon Bogi, nemandi á miðstigi gaf tóninn með fallegum trompet blæstri. Áður en borðhald hófst sungu nemendur Þorraþræl og Þegar hnígur húm að þorra við undirspil Óla Flosa.

Á meðan á borðhaldi stóð spiluðu nemendur smakk-bingó. Nemendur fengu bingóspjald þar sem búið var að skrá niður allt sem í boði var og voru nemendur hvattir til að smakka sem mest. Þetta skemmtilega verkefni fékk nemendur til að ígrunda betur það sem í boði var og þó nokkrir lögðu sig fram við að fá bingó með því að smakka allt, vert er að taka það fram að matseðillinn taldi 21 rétt. Yngsta stigið lauk svo blótinu með dansskemmtun.