Unicef-hreyfingin

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Mörg undangengin vor hefur Grunnskóli Borgarfjarðar tekið þátt í Unicef-hreyfingunni. Viðburðardagur hreyfingarinnar var haldinn 25.maí s.l. á Varmalandi og 2. júní á Kleppjárnsreykjum.  Áður höfðu nemendur fengið fræðslu um réttindi sín, baráttu UNICEF í þágu allra barna og ólíkar aðstæður jafnaldra sinna í öðrum löndum. Hugmyndin er að þau átti sig á að öll börn eigi sömu réttindi og að saman geti þau lagt sitt af mörkum til að gera heiminn að betri stað. Markmiðið með viðburðadeginum er að gefa börnunum kost á að leggja sitt af mörkum með því að safna áheitum úr sínu nánasta umhverfi. Lagt er út frá því að margt smátt geri eitt stórt. Áhersla er því alls ekki lögð á háar upphæðir heldur að börnin upplifi samtakamáttinn sem felst í því að allir vinni saman og leggi sitt af mörkum til mannúðarmála. Á viðburðadeginum fá börnin afhendan heimspassa sem er límmiðabók en jafnframt heimskort og minnir á að öll börn, um allan heim, eiga sömu réttindi. Börnin safna límmiðum í heimspassann sinn og fá einn miða fyrir hvert unnið verk / hverja vegalengd sem þau fara. Að þessu sinni voru ýmsar stöðvar á Varmalandi skipulagðar, eins og hlaup, vatnsburður,stígvélakast og fleira. Allir stóðu sig vel og lögðu sig fram um að safna sem flestum límmiðum. Á Kleppjárnsreykjum voru eftirfarandi stöðvar: þrautabraut á leikvelli, hjólabraut, hitta í körfu 5x, haltur leiðir blindan, kubb spilið, Baka brauð yfir eldi, færa mann frá einum stað til annars, bera vatn heim, plankar- ganga samstíga vefa í trjám, stimpla hendur og sauma verkefni. Börnin skemmtu sér konunglega og voru mjög dugleg að leysa þrautirnar.