Upplestrarkeppni 4. – 7. bekkjar á Varmalandi

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Fimmtudaginn 10. mars var haldin upplestarkeppni miðstigsins á Varmalandi þar sem hefð er fyrir því að miðstigið allt fái tækifæri til að æfa sig með 7. bekknum. Sem fer svo áfram í undankeppni innan GBF í Snorrastofu fyrir Lokahátíð stóru upplestrarkeppninnar á Vesturlandi sem verður í Borgarnesi þann 17. mars n.k. Nemendur höfðu staðið í ströngu við æfingar og búið var að fara yfir þau atriði sem dómarar myndu dæma, til dæmis: blæbrigði og túlkun, líkamsstöðu og raddstyrk. Síðan fengum við til okkar þær Fjólu Benediktsdóttur og Helgu J. Svavarsdóttur sem dómara.
Í keppninni stóðu þau sig öll sem eitt eins og hetjur hvort sem var við ræðupúltið eða á Teams, bæði sem flytjendur og áheyrendur. Þetta er nefnilega alls ekki svo einfalt að gera, það er að mörgu að hyggja en þessi hópur var einfaldlega frábær, sem allur hafði það að markmiði að sigra sjálfan sig sem þau og gerðu.
En einn hreppti fyrsta sætið og það var hann Jakob Konráð Gunnarsson í 6. bekk sem las á mjög skemmtilegan hátt með góðri túlkun. Samróma ákvörðun var sú að hinir voru allir í 2. sæti. Fengu þau að launum viðurkenningarskjal og lítið páskaegg sem og smá safa og kex.

Spennandi verður síðan að fylgjast með 7. bekk GBF í Snorrastofu á mánudaginn 14. mars kl. 17.00. Áfram GBF!