Upplestur í beinni

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Það er óhætt að segja að tæknin hjálpi til við að brjóta upp skólastarfið hjá okkur. Í síðustu viku og þessari hafa bræðurnir Ævar Þór og Guðni Benediktssynir lesið upp úr bókum sínum fyrir nemendur skólans. Ævar las uppúr bókinni sinni Þín eigin undirdjúp sem er sjöunda bókin í Þín eigin bókaröðinni og Guðni las uppúr bókinni Bráðum áðan . Nemendur nutu þess að fylgjast með hver hópur í sínu rými og fengu að beina spurningum til höfundanna eftir lesturinn. Ævar kallaði eftir hugmyndum að næstu bókum og brugðust nemendur vel við og gáfu honum nokkrar frumlegar hugmyndir. Nemendur fengu einnig Gunna Helga og Björk Jakobs heimsókn í gegnum netheima þar sem þau kynntu bækur sínar. Gunnar Helgason er að gefa út bókina Barnaræninginn sem er framhald af bókinni Draumaþjófurinn. Björk Jakobsdóttir kynnti nemendum fyrir bók sinni Hetja sem fjallar um hestinn hennar sem heitir Hetja. Frábært framtak hjá rithöfundum að bjóða nemendum upp á kynningar þrátt fyrir hertar samkomutakmarkanir.