Upplestur

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Á íbúafundi um svefn í Hjálmakletti þriðjudaginn 12.nóv s.l. lásu 4 nemendur GBF frumsamdar sögur. Það voru þau Benjamín Mager, Egill Árni, Embla Móey og Þóra María sem lásu sínar sögur. Sögurnar fjölluðu um drauma og voru þær allar hver annarri frumlegri enda gefa draumaheimar ímyndunaraflinu alveg lausan tauminn. Nemendur fluttu þær með miklum tilþrifum og var góður rómur gerður að leikrænum flutningi þeirra. 

Skapast hefur sú hefð í Gbf fyrir því að nemendur skólans fari og lesi fyrir eldri borgara í Brún í tilefni Dags íslenskrar tungu. Miðvikudaginn 13.nóvember fóru því þau Askur Týr, Heiðar, Hermann, Kristján, Sigurður og Sædís á fund eldri borgara og lásu fyrir þau ljóð. Voru félagsmenn ánægðir með heimsóknina og höfðu gaman af upplestrinum sem var mjög fjölbreyttur. Ekki spillti svo fyrir að nemendur gáfu sér tíma til að spjalla við gestgjafana og njóta frábærra veitinga að lestrinum loknum.