Útikennsla á Varmalandi

Grunnskóli Borgarfjarðar Fréttir

Yngsta og miðstigið á Varmalandi er í útikennslu einu sinni í viku. Síðustu vikurnar höfum við brallað ýmislegt og höfum við farið í rannsóknarleiðangra um afkima skógarsvæðisins á Varmalandi. Farið upp í gegnum skóginn og enduðað uppi á klettunum fyrir ofan Hótel Varmaland. Þar sem útsýnið er fallegt og var tekin hópmynd við þetta skemmtilega tækifæri.

Það sem gerir útinámið oft skemmtilegt er að það kemur í ljós að það eru margir mismunandi þættir sem vekja áhuga hvers og eins í náttúrunni og að það er margs að njóta. Því er búið að rannsaka margt og mikið og hefur hópurinn í heild mikinn áhuga á lífríkinu ekki síður en umhverfinu í heild. Til viðbótar við hópmyndina má sjá nemendur að sýna það sem þeir finna og einnig að rannsaka fundina í víðsjá þegar heim er komið.

Markmiðið með útikennslunni er að gefa nemendum tækifæri til að tengjast náttúrunni, sýna öllum þáttum umhverfisins virðingu og að æfa sig í að fara eftir fyrirmælum í göngum og verkefnum. Því langar okkur að hrósa þessum hóp sérstaklega fyrir hvað hann er duglegur að hafa augun opin fyrir því sem ekki á heima í náttúrunni. Rusl á ekki að vera á víðavangi.