Á vordögum er ýmislegt um að vera á Varmalandi. Nemendahópar fara í margvíslegar ferðir og taka þátt í Unicefdeginu ásamt leikjadeginum sem er árleg hefð á þessari starfsstöð. Í ár var m.a. farið í hjólaferð að Melkoti, gönguferð á Hraunsnefsöxl, gönguferð í nágrenni skólans, unnar þrautir á Unicefdegi og safnað með áheitum fyrir Unicef. Föstudaginn 4.júní flaggaði Varmalandsdeild sínum 5. Grænfána og tóku nemendur á móti fánanum við hátíðlega athöfn.Síðasta daginn okkar í skólanum, 7.júní, er alltaf leikjadagur þar sem nemendur fá að velja sér mismunandi verkefni fram að hádegi. T.d. að grilla í skóginum, fara í sund og spila við félagana svo eitthvað sé nefnt. Einnig keppa nemendur við starfsfólk í fótbolta og var það svo þetta vorið líkt og hingað til.