Lýðræði og mannréttindi

Skólar þurfa að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Því er mikilvægt að í skólanum sé lýðræðislegt gildismat mótað og að í öllum starfsháttum sé borin virðing fyrir manngildi hvers og eins.

Viðhorf, gildismat og siðferði eru ríkir þættir í lýðræðis – og mannréttindamenntun sem byggist einkum á gagnrýninni hugsun, ígrundun og rökræðu um grunngildi samfélagsins ásamt þekkingu á lýðræði og mannréttindum.

Í Grunnskólanum í Borgarfirði leggjum við áherslu á lýðræðislegt skólasamfélag sem byggir á samvinnu og samveru, viðurkennir að velferð hvers og eins skipti máli og að mannréttindi allra séu virt. Svo að það megi verða þarf skólasamfélagið allt að finna til samábyrgðar, meðvitundar og virkni.

Í Grunnskólanum í Borgarfirði er höfðað til áhuga og þátttöku nemenda í skólastarfinu, að virkja þá til samræðu og ígrundunar og til að taka afstöðu til ýmissa siðferðilegra álitamála.

Í skólastarfinu eru nemendur þjálfaðir í lýðræðislegum vinnubrögðum bæði í almennu námi og í félagsstörfum.

Unnið er í anda uppbyggingarstefnunnar þar sem efling sjálfsmyndar, sjálfsskoðun og ábyrgð á engin gerðum eru grunnþættir.

Í lífsleikni fer fram fræðsla og umræður um lýðræði og mannréttindi.

Stefnt er að:

  • því að þjálfa nemendur enn frekar í lýðræðislegum vinnubrögðum bæði í almennu námi og í félagsstörfum.
  • því að þjálfa nemendur í umræðum og rökræðu.
  • meiri  beinni fræðslu um mannréttindi og lýðræði.
  • auknu vali í námsframboði. Það birtist í fleiri valgreinum og auknu vali um viðfangsefni og námsleiðir í öllum námsgreinum. Samtímis er stefnt að því að nemendur þjálfist í að rökstyðja val sitt.

Uppfært 08/2016