Kennsla við hæfi

Grunnskóli Borgarfjarðar er heildstæður skóli sem tekur við öllum nemendum í sínu skólahverfi.
Samkvæmt 2. gr. reglugerðar 585/2010 teljast nemendur með sérþarfir þeir nemendur sem eiga erfitt með nám sökum sértækra námsörðuleika, tilfinningalegra eða félagslegra erfiðleika og/eða fötlunar, sbr. 2. gr. laga um málefni fatlaðra nr. 59/1992, nemendur með leshömlun, langveikir nemendur, nemendur með þroskahömlun, geðraskanir og aðrir nemendur með heilsutengdar sérþarfir.

Jafnrétti til náms eru almenn mannréttindi og hlutverk skólans er að stuðla að alhliða þroska og menntun allra nemenda. Stefnt er að því að komið sé til móts við alla nemendur á eigin forsendum í námi og starfi skólans.

Meginmarkmið:

Sérkennsla er ein þeirra leiða sem við notum til þess að koma til móts við mismunandi þarfir og getu hvers og eins nemanda. Markmið aðalnámskrár eiga jafnt við sérkennslu sem og almenna kennslu, en skólinn leitast við að aðlaga kennsluna að öllum nemendum sínum. Markmiðin eru því einstaklingsbundin og byggja á greiningu á námsþörf einstaklingsins.

Framkvæmd:

Til grundvallar sérkennslu eða stuðningskennslu er lögð umsókn umsjónarkennara sem hann leggur fram að vori í viðtali við skólastjórnenda eða sérkennara. Umsjónarkennari leggur einnig fram óskir um aðstoð stoðþjónustu til að mæta þörfum nemenda með frávik í námi og / eða beiðnir um greiningar. Skólastjórn tekur við beiðnum, forgangsraðar og úthlutar tímum á grundvelli þess tímamagns sem er til ráðstöfunar.

Annir eru þrjár á skólaárinu og er sérkennsluþörf endurmetin við hver annaskipti og oftar ef þarf.

Í reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla segir í 11. gr. að sérstakur stuðningur geti falið í sér breytingu á námsmarkmiðum aðalnámskrár grunnskóla, námsgögnum, námsaðstæðum og/eða kennsluaðferðum. Stuðningurinn er skipulagður til lengri og skemmri tíma eftir þörfum nemandans.

Gera skal rökstudda einstaklingsnámskrá fyrir hvern einstakling sem byggð er á upplýsingum um heildaraðstæður nemenda og athugun og mati á stöðu hans í námi og þroska. Námskráin skal reglulega endurskoðuð í samstarfi við foreldra og að höfðu samráði við nemendur eftir því sem við verður komið.

Stuðningskennsla er skipulögð af umsjónarkennara í samvinnu við þann sem innir hana af hendi. Námshópar geta verið misjafnlega saman settir og fara áherslur eftir verkefnum bekkjarins hverju sinni og samkvæmt getu viðkomandi nemanda. Sér- og stuðningskennsla byggist á greiningum sem unnin er af sérkennara eða öðrum sérfræðingi, mati umsjónarkennara og upplýsingum frá foreldrum.

Sérkennslan getur farið fram á mismunandi hátt:

  • Stuðningur við minni hópa inni í bekk
  • Stuðningur við einstaka nemendur inni í bekk
  • Kennsla í litlum hópum í sérkennslustofu
  • Einstaklingskennsla í sérkennslustofu
  • Kennsla í námsveri
  • Annað sem henta þykir

Sérkennsla í hópum þarf ekki að vera bundin við bekk né árgang, heldur geta nemendur með sambærileg viðfangsefni unnið saman í hópi.

Samkvæmt 8. gr. reglugerðar 585/2010 skal stuðningi við nemendur með sérþarfir sinnt af umsjónarkennara, sérkennara eða öðrum kennurum eftir því sem verður við komið. Heimilt er að skipuleggja og meta tímabundna þátttöku nemenda í atvinnulífi að hluta sem nám höfðu samráði við foreldra og sérfræðiþjónustu sveitarfélaga.

Uppfært 07/2010