Markmið náms í ljósi ákvæða aðalnámskrár

Guðmundur Finnbogason (1873–1944) skrifar svo um nám í Lýðmenntun sinni fyrir rúmum 100 árum:
Aldrei má gleyma því að öll þekking á að auka færni vora og leikni, og að eini áreiðanlegi mælikvarðinn fyrir því hvað vér vitum er það hvað vér getum. Sú þekking sem ekki gerir oss í neinu færari en vér áður vorum, er lítils virði. Þess vegna ber að haga öllu námi svo að nemandinn fái sem mest tilefni til að hagnýta sér hverja nýja þekkingu, nota hana sem undirstöðu nýrrar þekkingar eða sem leiðarljós ytri athafna. Þegar þekkingin er notuð, skýrist hún, vex og festist í minni og verður æ handhægara og betra verkfæri (Guðmundur Finnbogason, 1994, bls. 66).
Inntak skilgreiningar hans er að það sé ekki nóg að vita heldur verður einstaklingurinn að gera þekkinguna að sinni með því að sýna það í verki að hann hafi bætt einhverju við fyrri þekkingu sína og nýti sér hana.
Í nýrri aðalnámskrá er víða fjallað um hvað felst í menntun og mikilvægi hennar fyrir einstaklinginn og samfélagið í heild sinni. Í þeirri umfjöllun kemur m.a. fram að almenn menntun eykur hæfni einstaklingsins til að leysa verkefni daglegs lífs og eflir skilning einstaklingsins á eiginleikum sínum og hæfileikum. Með því móti eykst hæfni hans til að leysa hlutverk sín í flóknu samfélagi. Hún er hvort tveggja í senn einstaklings- og samfélagsmiðuð. Í námskránni er lögð áhersla á að nemendur kunni að sækja sér nýja þekkingu og leikni, jafnframt því að geta beitt þekkingu sinni. Námshæfni nemenda felur í sér meðvitund um mikilvægi þess að vera ábyrgur og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrunda og rökstyðja. Námshæfnin er undirstöðuþáttur í öllu skólastarfi og byggist á sjálfsskilningi og áhuga nemenda. Það að þekkja eigin styrkleika og veikleika og að vera fær um að taka ákvarðanir á þeim grunni. Þannig er lögð áhersla á námsferlið fremur en afurðina.
Grunnskólum ber að mennta öll börn á árangursríkan hátt. Í 2. gr. laga um grunnskóla er lögð áhersla á það meginhlutverk grunnskólans að stuðla að alhliða þroska allra nemenda. Í þessu felst krafan um að nám, bæði bóklegu námi, verk- og listnámi, sé á forsendum hvers og eins nemanda. Námsumhverfi nemenda sé sem mest hvetjandi þar sem hann finnur til öryggis og fær notið hæfileika sinna, án tillits til atgervi þeirra til líkama og sálar, félagslegt og tilfinningalegt ásigkomulag eða málþroska. Þetta á við um öll börn, fötluð og ófötluð, langveik, afburðagreind og börn með þroskaröskun, börn úr afskekktum byggðarlögum og börn úr minnihlutahópum sem skera sig úr hvað varðar mál, þjóðerni eða menningu.
Nám í grunnskóla tekur mið af þroska, persónugerð, hæfileikum, getu og áhugasviði hvers og eins. Við allt skipulag skólastarfs og kennslu ber að leggja þessi atriði til grundvallar. Það gerir kröfur um að kennari leggi sig fram um að kynnast hverjum þeim nemanda sem hann kennir, meti stöðu hans í námi og hafi bæði nemanda og foreldra hans með í ráðum um þau markmið sem stefnt skal að hverju sinni. Leggja skal áherslu á að foreldrar fylgist með námsframvindu barna sinna.
Í umfjöllun um menntun og nám nemenda er hæfni lykilhugtak. Hæfni nemanda hvílir að mestu á leikni hans og þekkingu. Nemendur þurfa að vita hvað þeir vita og hvað þeir geta og vita hvernig best er að beita þekkingu sinni og leikni. Nemendur eiga að vera meðvitaðir um mikilvægi þess að vera ábyrgur og skapandi í þekkingarleit sinni, ígrundi og rökstyðji. Hæfni er þannig meira en þekking og leikni, hún felur einnig í sér viðhorf og siðferðisstyrk, tilfinningar og sköpunarmátt, félagsfærni og frumkvæði.
Í faggreinanámskrám koma fram hæfniviðmið sem stefnt er að sem flestir nemendur ná á skólagöngu sinni. Hæfniviðmiðin sem sett eru fram í námskrám ráðuneytisins ber skólum að útfæra og birta sem hluta af skólanámskrá. Kennarar skólans útfæra þau í þeim greinum sem þeir kenna hverju sinni í kennsluáætlunum sínum sem birtast inn á Mentor.

Að lokum er tilvitnun í Guðmund:

„Að skilja eitthvað er að heimfæra það undir það sem maður þegar þekkir og skilur og sjá skýrt samband hvors tveggja. Og allir þekkja hvílíkan unað slíkt getur veitt.“Guðmundur Finnbogason, 1994, bls. 65

Uppfært 07/2014