Erlend tungumál

Menntagildi og megintilgangur erlendra tungumála

Tungumál er eitt mikilvægasta tæki mannsins til að orða hugsun sína, afla sér þekkingar og eiga samskipti við aðra. Kunnátta í ólíkum tungumálum gegnir mikilvægu hlutverki í vitsmunaþroska einstaklingsins, eykur víðsýni og stuðlar að þroska á öðrum sviðum. Umfjöllun um aðrar þjóðir og kynni af þeim opna gáttir að fjölbreyttum menningarheimum, auka víðsýni, skilning, umburðarlyndi og virðingu gagnvart öðrum og ólíkum lifnaðarháttum og stuðla þar með að betri skilningi á eigin menningu.
Megintilgangur tungumálanáms er að nemendur öðlist alhliða hæfni til að nota tungumálið sem lifandi verkfæri í fjölbreyttum tilgangi og við ólíkar aðstæður. Námið á að leiða til þess að nemendur öðlist hæfni til að tileinka sér inntak í töluðu og rituðu máli af ólíkum toga og hæfni til að meta og hagnýta sér þá þekkingu sem aflað er. þeir eiga að fá tækifæri til að tengja inntak námsins eigin reynslu, aðstæðum og áhugamálum. Í tungumálanámi eiga nemendur að öðlast leikni í að beita málinu hnökralítið í frásögnum og samskiptum, þannig að það hæfi tilgangi, aðstæðum og viðtakanda hverju sinni.
Námið á að veita nemendum tækifæri til að nota málið á skapandi hátt í ræðu og riti.
Í tungumálanáminu eiga nemendur að tileinka sér vinnubrögð og aðferðir sem auðvelt er að yfirfæra á nám í öðrum tungumálum og verða þeim veganesti út í lífið. Nemendur eiga að fá þjálfun í að vinna saman að úrlausn verkefna og temja sér gagnrýna notkun margs konar hjálparmiðla. Námið þarf að miða að því að nemendur læri að bera ábyrgð á eigin námi, þeir setji sér markmið, ígrundi og meti eigin námsframvindu og greini þar með veikar og sterkar hliðar sínar. Þannig má örva trú nemenda á eigin getu og efla þroska þeirra og sjálfsmynd.

Inntak og skipulag náms:

Lögð er áhersla á alhliða nálgun tungumálsins, þ.e. hlustun, lesskilning, samskipti, frásögn, ritun, menningarlæsi og námshæfni. Tengsl erlendu tungumálanna við aðrar námsgreinar geta verið með ýmsu móti og fer það eftir efnum og aðstæðum. Komið er inn á ýmis samfélagsleg málefni í gegnum kvikmyndir og margmiðlun, um næringu og heilsu og fleiri efni í gegnum texta.
Hæfni nemenda er metin á fjölbreyttan hátt, t.d. með skriflegum og munnlegum prófum, fjölbreyttum verkefnaskilum, hópvinnuverkefnum og einstaklingsverkefnum. Nemendur eiga að vera virkir þátttakendur í námsmati.
Grunnþættirnir sjást bæði í efnisvali og umfjöllun og einnig í verkefnum nemenda. Þeir þættir sem tilgreindir eru sem lykilhæfni eru þjálfaðir í daglegu starfi og eru hluti af námsmatinu. Í tungumálanámi er mjög mikilvægt að nemendur læri að notfæra sér fjölmörg hjálpatæki, orðabækur og veforðabækur, málfræðivefi og ýmsar upplýsingaveitur sem gefa innsýn í mál og menningu.

Hæfniviðmið

Hæfniviðmið eru tilgreind í Aðalnámskrá grunnskóla og byggja á Evrópsku tungumálamöppunni. Námsmat í erlendum tungumálum miðast viðþessi sömu hæfniþrep.
Enska: Við lok 6. bekkjar er stefnt að því að nemendur hafi náð 1. stigi eins og það er skilgreint í Aðalnámskrá grunnskóla, 2. stigi við lok 8. bekkjar og 3. stigi við lok 10. bekkjar.
Danska: Við lok 8. bekkjar er stefnt að því að nemendur hafi náð 1. stigi eins og það er skilgreint í Aðalnámskrá grunnskóla 2. stigi við lok 9. bekkjar og 3. stigi við lok 10. bekkjar.
Stigin eru skilgreind nánar í Aðalnámskrá grunnskóla.
Við lok 1. stigs getur nemandi skilið einfalt skýrt mál, lesið og skilið stutta texta, haldið uppi einföldum samræðum, sagt frá og lýst atburðum á einfaldan hátt, skrifað stuttan samfelldan texta og sýnt fram á að hann hefur nokkra þekkingu á því menningarsvæði þar sem tungumálið er notað. Einnig á hann að geta sett sér einföld markmið og lagt mat á námsframvindu sína, með aðstoð kennara ef með þarf.
Við lok 2. stigs getur nemandi skilið talað mál um efni sem hann þekkir og/eða varða hann sjálfan, lesið sér til gagns og ánægju auðlesna texta af ýmsum gerðum, sýnt fram á að hann er nokkuð samræðuhæfur um efni sem hann þekkir, getur sagt frá ýmsu sem viðkemur daglegu lífi og flutt einfalda undirbúna kynningu, skrifað samfelldan texta um efni sem hann þekkir og sýnt fram á að hann þekkir til og skilur allvel ákveðin lykileinkenni í menningu viðkomandi mál- og menningarsvæði. Þá á nemandinn að geta sett sér nokkuð raunhæf markmið og gera sér grein fyrir því hvar hann stendur í náminu og beitt sjálfsmati.
Við lok 3 stigs getur nemandi fyrirhafnarlítið tileinkað sér talað mál um margvísleg efni í kunnuglegum aðstæðum, lesið sér til gagns og ánægju almenna texta af ýmsum toga, sýnt fram á að hann er vel samræðuhæfur um kunnugleg málefni og notar viðeigandi orðfæri, hann getur tjáð sig áheyrilega um málefni sem hann þekkir og getur flutt stutta frásögn, skrifað langan samfelldan texta á hnökralitlu máli um efni sem hann hefur þekkingu áog getur sýnt fram á að hann þekkir vel til mannlífs og menningar á viðkomandi málsvæðis. Nemandinn getur sett sér raunhæf markmið og skipulagt tungumálanám sitt á árangursríkan hátt, með margvíslegum námsaðferðum

Uppfært 07/2014