Umfjöllun um námssviðið
Málið er mikilvægasta samskiptatæki mannsins. Með því tjáir hann tilfinningar sínar, setur fram skoðanir og færir rök að þeim. Traust kunnátta í móðurmáli er undirstaða staðgóðrar menntunar og ein af nauðsynlegum forsendum fyrir virkri þátttöku í samfélaginu.
Í Aðalnámskrá grunnskóla 2013 koma fram viðmið sem sett eru af yfirvöldum sem eiga að vera leiðarljós við nám og kennslu í grunnskólum landsins. Í viðmiðum fyrir íslensku er gert ráð fyrir að við lok grunnskóla sé nemandi fær um að geta flutt mál sitt á skýran og skilmerkilegan hátt, hlustað af athygli og sett fram skoðanir sínar á sjálfstæðan hátt og rökstutt mál sitt. Nemandinn á að vera vel læs og geta lesið sér til gagns á gagnrýninn hátt og myndað sér skoðun út frá því. Hann á að vera fær um að geta beitt skipulegum og góðum vinnubrögðum við verk sín og sett fram ritaðan texta af öryggi og á skipulagðan hátt. Hann þarf einnig að geta beitt málfræðihugtökum af öryggi og gert sér góða grein fyrir hlutverki þeirra.
Tilgangur og mikilvægi
Börn hefja skólagöngu talandi á móðurmáli sínu, hvort sem um er að ræða íslensku, íslensku sem annað mál eða á íslensku táknmáli. Við þau tímamót verður skólinn sjálfkrafa virkur þátttakandi í málauppeldi barnsins ásamt heimili þess. Íslenskan fléttast inn í allar aðrar námsgreinar og hefur hún því ákveðna sérstöðu meðal þeirra. Því er lestur og góður skilningur á íslensku ásamt leikni við að beita tungumálinu, afar mikilvægur þáttur í íslenskum skólum.
Áherslur skólans varðandi kennsluhætti
Í Grunnskólanum í Borgarfirði er lögð rækt við góða og vandaða meðferð íslensks máls, jafnt í ræðu sem riti og stuðst við aðferðir heildstæðrar móðurmálskennslu, þ.e. innbyrðis tengsl þátta og viðfangsefna, innbyrðis jafnvægi þeirra og eðlilega stígandi í náminu. Lögð er mikil áhersla á lestur og læsi.
Uppfært 07/2014