Samfélagsfræði

Undir samfélagsgreinar heyra nú saga, landafræði, þjóðfélagsfræði, trúarbragðafræði, lífsleikni og heimspeki ásamt siðfræði.

Samfélagsgreinar eiga sér grundvöll í skyldu hvers samfélags að fræða nemendur um gildi á borð við jafnrétti, lýðræði og umhyggju og kenna þeim að bera virðingu fyrir þýðingu þeirra fyrir farsælt líf. Þeim er ætlað að hjálpa nemendum að bregðast við áskorunum úr umhverfinu og nærsamfélaginu í krafti skynsemi sinnar og gera þeim grein fyrir ábyrgð á þeim leiðum sem hver og einn velur sér til þess að fóta sig í félagi við annað fólk og umhverfi. Þeim er einnig ætlað að efla skilning á ákveðnum grundvallargæðum mannlegs lífs og skiptingu þeirra, með því að útskýra hvernig þessi gæði leiða til margvíslegra skyldna, réttinda og gilda, sem órofa hluti af félagslegum og siðferðislegum veruleika okkar.

Markmið samfélagsgreina er að nemendur tileinki sér réttsýni, gildismat og ábyrgð, sem meðal annars byggir á hæfni til þess að setja sig í spor annarra og hæfni til þess að sjá fyrir afleiðingar gerða sinna fyrir eigin hag, unhverfið og þjóðfélagið í heild.

Hver fræðigrein innan samfélagsgreinanna gegnir ákveðnu hlutverki, til þess að gildi og markmið greinanna náist í heild. Í sögukennslu er byggt á heildstæðri og fjölbreyttri skoðun heimilda um samfélög og einstaklinga frá fortíð til samtíma. Landafræðin fjallar um breytileg lífsskilyrði fólks í heiminum með hliðsjón af víxlverkun manns og náttúru. Trúarbragðafræði er ætlað að auka skilning á ríkjandi trúarbrögðum og ólíkum trúarhefðum með umburðarlyndi og víðsýni að leiðarljósi. Siðfræði kennir hvernig mögulegt er að rannsaka siðræn gildi, efla siðvit og ræða saman um siðferðileg álitamál. Námsgreinar eins og lífsleikni og þjóðfélagsfræði gegna einnig mikilvægu hlutverki við að styrkja á skapandi hátt áræði, frumkvæði, hlutverk, ábyrgð og sjálfsmynd nemenda þegar þeir standa frammi fyrir stórum spurningum sem varða reynsluheim, hugarheim og félagsheim þeirra.

Sérstaða Borgarbyggðar er að vera frægt söguhérað þar sem m.a. Egill Skallagrímsson og Snorri Sturluson bjuggu. Mörg örnefni í héraðinu bera þessu merki. Í Borgarnesi eru nemendur sem koma úr ólíku umhverfi, þ.e. sveit og bæ sem gefur þeim tækifæri á að kynnast högum hvers annars. Borgarbyggð er þjónustu-, framleiðslu- og landbúnaðarhérað og er sú sérstaða nýtt eins og kostur er, m.a. í kynnis- og vettvangsferðum.

Kennsluhættir

Umræðu- og spurnaraðferðir stuðla að aukinni hæfni í samfélagsgreinum. Einstaklingsvinna, hópvinna og paravinna. Samanburður á atburðum, hugmyndum eða aðferðum. Byrjendalæsi, þemanám og leitaraðferðir (heimildarvinna, vettvangsferðir og viðtöl). Bekkjarfundir. Leikræn tjáning og hlutverkaleikir. Unnið í anda uppbyggingarstefnunnar.

Námsmat

Kennsla, nám og námsmat mynda eina heild. Þetta þarf að vera sanngjarnt og gefa nemandanum tækifæri til að sýna þekkingu, leikni og hæfileika. Megintilgangur er að kanna stöðu nemenda, nota niðurstöður til að leiðbeina þeim um námið og hvernig þeir geti náð markmiðum þess.
Leggja skal áherslu á frammistöðumat sem byggist á því að nemendur velti reglulega fyrir sér námi sínu með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið og ákveða hvert skuli stefna.

Dæmi um námsmat: símat, munnlegt, verklegt og skriflegt mat, sjálfsmat og jafningjamat, námsmöppur.

Nemendur þurfa að vera virkir þátttakendur í námsmati.