Námsmat

Í Grunnskóla Borgarfjarðar er búið að uppfæra námskrár og námsmat síðustu árin. Með því er verið að breyta kjarnahugsun í skólastarfi. Nú stefna nemendur að skilgreindri hæfni sem byggir á þekkingu og leikni. Hæfnimiðað námsmat er algjör kúvending á klassísku námsmati. Að meta nemendur út frá hæfni krefst þess að kennarar merki við stöðu nemenda í mismunandi hæfni-og matsviðmiðum.

Námsmat nemenda er byggt á matskvarðanum A, B, B+, C, C+ og D. Þau viðmið verða notuð fyrir mið- og unglingastigið, 6.-10. bekk. Fyrir nemendur á yngsta stigi eru notuð tákn sem matskvarði: blá stjarna, sem segir til um framúrskarandi árangur, grænt tákn, sem segir til um að hæfni sé náð, gulur hringur, segir til um að nemandi þarfnist þjálfunar og rautt X, segir til um að hæfni hafi ekki verið náð.

Hæfniviðmið lýsa hæfni en matsviðmið segja til um hversu vel nemandi hefur viðkomandi hæfni á valdi sínu. Hæfnikort nemenda á að sýna hvaða hæfni nemandi á að búa yfir í hverri grein, fyrir hvert aldurstig eða ár og hæfnikortið á að vera grundvöllur fyrir námsmat. Nemendur munu koma til með að eiga hæfnikort fyrir hvert námsár í öllum greinum. Kennari skipuleggur kennslu síðan út frá hæfnikortum og metur hvar nemandinn er staddur. Með því er hægt að sjá styrkleika nemandans og einnig greina hvaða hæfniviðmið nemandinn þarf að vinna betur með til að bæta sig.

Með matsviðmiðum fæst leiðsögn fyrir kennara, nemendur og foreldra um hvaða hæfni hjá nemanda liggur að baki hverju mati.

Skólinn hefur ákveðið að vinna eftir hæfni-og matsviðmiðum aðalnámskrár með sínum áherslum.

Hæfnikort nemanda má finna með því að opna nemendaspjald í nýja kerfinu á mentor og þá birtist flís sem heitir námsmat og undir henni er hæfnikort nemanda.

Samtal umsjónarkennara, foreldra og barna á að leiða til umræðu um framvindu og leiðir.

Mikilvægt er að hafa í huga að þetta eru fyrstu skref skólans í nýju ferli námsmats og að það er þróunarverkefni til framtíðar. Með samstilltu átaki mun leiðin fram á við verða léttari.

Matsviðmið eru lýsing á hversu vel nemandi hefur skilgreinda hæfni á valdi sínu.

Lýsingarnar eru tengdar einkunnunum A, B og C.

Matskvarðinn er skilgreindur sem sex einkunnir: A, B+, B, C+, C og D.

Matsviðmið fyrir A: Einkunnina A fá þeir sem sýna framúrskarandi hæfni.
Matsviðmið fyrir B+: Nemandi hefur náð öllum viðmiðum einkunnarinnar B og að hluta til hæfni A.
Matsviðmið fyrir B: Góð hæfni og frammistaða í námi. Gera má ráð fyrir að meirihluti nemenda nái þeirri hæfni.
Matsviðmið fyrir C+: Nemandi hefur náð öllum viðmiðum einkunnarinnar C og hluta til hæfni B
Matsviðmið fyrir C: Sæmileg hæfni. Þeir sem standast ekki þær kröfur sem gerðar eru í B einkunnar viðmiðum.
Matsviðmið fyrir D: Lýsir hæfni í námi sem nær ekki viðmiðum sem lýst er í C einkunn. Gerð er grein fyrir hæfni nemanda út frá einstaklingsmiðaðri námskrá og áætlun.

Í grunnskólum er nokkur hópur nemenda sem stundar ekki nám sitt að fullu samkvæmt skilgreindum hæfni- og matsviðmiðum, heldur að hluta eða öllu leyti eftir aðlagaðri námskrá og viðmiðum í samræmi við metnar sérþarfir. Þar sem það á við skal merkja vitnisburðinn með stjörnu (*). Þannig fá nemendur A*, B*, C* eða D* í samræmi við hvernig þeir ná einstaklingsbundnum matsviðmiðum sínum.

 

uppfært  janúar 2022