Smiðjuhelgar

Nemendur 8. – 10. bekkja GBF eru með skerta stundatöflu. Til þess að uppfylla kröfur um 37 stunda tíma viðmið hefur verið farin sú leið að vera með svokallaðar smiðjuhelgar tvisvar sinnum á vetri. Fyrri helgin verður 2. – 3.október, 2020 og verður hún haldin á Varmalandi, nemendur frá Kleppjárnsreykjum koma þá að Varmalandi og taka þátt í vinnunni. Seinni helgin verður haldin á Kleppjárnsreykjum 16. – 17. apríl, 2021 og þá koma nemendur frá Varmalandi að Kleppjárnsreykjum. Nemendur 8. – 10. bekkja beggja deilda verða eftir í skólanum að lokinni kennslu á föstudegi,
vinna í smiðjum frá kl. 14:30 – 18:00, fá kvöldmat og gista í skólanum. Næturgæsla verður í höndum foreldra beggja deilda, tveir foreldrar frá báðum deildum. Á laugardegi verður unnið frá kl. 9:00 – 14:00, foreldrar sækja nemendur að lokinni vinnu.

Undanfarna vetur hafa nemendur frá Auðarskóla, Laugargerðisskóla og Reykhólaskóla komið og tekið þátt í smiðjuhelgi. Dagskrá smiðjuhelga er enn ekki fullmótuð en í boði verður fjölbreytt val og koma nemendur
að þeirri ákvörðun. Þegar dagskrá liggur fyrir sendum við út valblað sem nemendur fylla út og skila til skólans. Hver nemandi velur eina smiðju og vinnur í henni allan tímann.

Tilgangur smiðjanna er að mæta vali fyrir unglingana með öðrum hætti en almennt tíðkast og gefa þeim kost á að hafa meira um val sitt að segja. Í fámennum skólum byggjast valgreinarnar oft á því sem kennarar innan hvers skóla treysta sér til að bjóða upp á að kenna og vill valið þá stundum verða einsleitt. Með smiðjuhelgunum fá nemendur fleiri tækifæri. Þeir setja fram hugmyndir sínar um það sem þeim finnst áhugavert og langar að hafa í vali. Unnið er út frá þeirra hugmyndum og leitast við að bjóða uppá smiðjur sem flestir hafa áhuga á hverju sinni. Smiðjurnar hafa verið kostaðar af skólunum og þátttökugjöld því engin.

Nemendur gista í skólanum eina nótt, eiga saman skemmtilega kvöldstund þar sem nemendafélögin sjá um að vera með kvöldvöku, ratleiki, sundsprell eða hvaðeina sem þeim þykir skemmtilegt. Foreldrar nemenda hjálpa til og taka kvöld- og næturvaktir.

Í lok smiðjuhelgarinnar koma foreldrar að sækja nemendur og gefst þeim tækifæri til að kynnast því sem unnið var að. Nemendur og kennarar gera grein fyrir verkefnum helgarinnar og afrakstur þeirra er sýndur. Vinna nemenda er metin af kennara eða leiðbeinenda hverrar smiðju fyrir sig í lokin og er hluti af námsmati valgreina skólans.

Skólinn hefur verið einkar heppinn með það að nærsamfélag hans hefur lagt honum lið og komið að smiðjunum með einum eða öðrum hætti. Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri hefur t.d. lagt til aðstöðu fyrir kennslu í logsuðu, pinnasuðu, járnsmíði og stálsmíði. Björgunarsveitir héraðsins hafa kennt nemendum heilmargt sem lítur að starfi björgunarsveitanna svo sem leitarstarfi, snjóflóðaleit, sigi, klifri, björgun úr vatni, farið í hella- og jöklaferðir og farið yfir fyrstu hjálp og margt fleira. Bridgefélögin, skákfélögin og leikfélögin hafa komið að vinnu í smiðjum, ásamt mörgum einstaklingum í héraði sem hafa margt fram að færa. Með þessu aukum við þekkingu nemenda á því sem fram fer og unnið er að í samfélaginu okkar í Borgarbyggð.

Hér má sjá lista yfir allar smiðjur sem hafa verið í boði:

  • Frétta- og fjölmiðlasmiðja
  • Glerlistasmiðja
  • Sjálfsvörn
  • Skylmingar
  • Reiðtygjasmiðjur
  • Kvikmyndagerð
  • Ljósmyndun
  • Pinna- og logsmiðjur
  • Járn- og stálsmíði
  • Eldsmiðjur
  • Vélvirkjun
  • Fatahönnun
  • Forritun
  • Söng- og tónlistasmiðjur
  • íþróttasmiðjur (handknattleikur, körfuknattleikur, knattspyrna, blak og amerískur fótbolti)
  • Grjót- og torfhleðsla
  • Matreiðsla (ítölsk, mexikönsk, austurlensk, marókósk matargerðarlist)
  • Bakarasmiðjur
  • Leiklistarsmiðjur
  • Stumpsmiðja (ásláttur, líkamstjáning og frumlegar hreyfingar)
  • Myndlist
  • Skyndihjálp
  • Nýsköpunar og legosmiðjur
  • Vísinda- og tilraunasmiðjur
  • Silfursmíði
  • Skartgripasmiðja
  • Tie dye taulitun
  • Ýmiss konar listasmiðjur, s.s. dans, fjöllist, afrískur trommuleikur, afródans, magadans, hipp hopp, street dance
  • Skák
  • Hárgreiðslu- og fléttusmiðjur
  • Förðun- og húðumhirða
  • Bridge
  • Spilasmiðjur
  • Kick box smiðjur
  • Rafiðnaðarsmiðja
  • Kransaskreyting
  • Leðurlistasmiðja
  • Kökuskreytinga- og bakarasmiðja
  • Jóga og núvitundarsmiðja
  • Útskurðar- og tálgunarsmiðja
  • Leðurlistasmiðja

Þeir sem velja matreiðslu hafa séð um að elda mat fyrir hópinn meðan á smiðjunni stendur; kvöldverð á föstudegi og hádegisverð á laugardegi. Það er gaman að sjá hversu vel nemendur leggja sig fram um að bjóða skólafélögum og gestum upp á góðan og framandi mat, ásamt því að vanda framreiðsluna. Oft skapa þeir skemmtilegan blæ í matsalnum sem tengist því að hafa viðeigandi tónlist eða eitthvað sem minnir á þann stað sem matreiðslan á uppruna til.

Það er alltaf spenna fyrir smiðjunum og virkilega gaman að fylgjast með áhuga nemenda, sem og þeirra sem taka að sér að sjá um smiðjurnar hverju sinni. Það má segja að sjá megi nemendur blómstra í verkefnum sínum. Þeir gleyma stund og stað þar sem tímarammi venjubundinna kennslustunda gleymist algerlega.

Almenn ánægja er með verkefnið bæði hjá nemendum og foreldrum sem hefur komið fram í könnunum og mati nemenda eftir helgarnar. Þeir sem hafa kennt í smiðjunum kveðja okkur yfirleitt með þeim orðum að þeir séu tilbúnir í aðra smiðjuhelgi ef áhugi sé fyrir því. Það eru góð meðmæli með nemendum okkar og verkefninu sjálfu.

Uppfært 24.11.2020