Tilveran er hér séð út frá sjónarhóli Orms sem er í níunda bekk. Hann er dæmigerður unglingur í uppreisnarhug. Tilfinningarnar ólga innra með honum en Ormur brynjar sig með alvöruleysi svo að hvergi finnst á honum veikur blettur til að koma höggi á. Ormur er greindur og hugsandi strákur en á í sífelldri baráttu í skólanum og veru hans þar lýkur þegar upp kemst um stuld hans á samræmdu prófunum. Fleira kemur upp sem raskar hugarrónni en Ormur leggur ekki árar í bát heldur ræður sig til sjós á meðan hann er að átta sig á hlutunum. Ýmislegt er framundan. Ritsnilli Orms er gerð opinber og skólinn bíður hans auk margs annars (Söguþræðir bls. 84).