Áætlun gegn einelti

Stefnuyfirlýsing Grunnskóla Borgarfjarðar

Starfsfólk og nemendur eru sammála um að einelti megi ekki eiga sér stað í Grunnskóla Borgarfjarðar. Leitað verður allra leiða til að fyrirbyggja einelti og hvers konar ofbeldi og áhersla lögð að leysa þau mál sem upp kunna að koma á farsælan hátt og koma í veg fyrir að þau geti endurtekið sig. Grunnskóli Borgarfjarðar skal vera öruggur og góður vinnustaður þar sem starfið mótast af einkunnarorðum og gildum skólans.

Skilgreining á einelti

Einelti er endurtekið ofbeldi, andlegt eða líkamlegt sem beinist að einstaklingi sem ekki er fær um að verja sig í þeim aðstæðum og veldur honum andlegri eða líkamlegri vanlíðan. Einelti getur verið stýrt af einstaklingi eða hópi. Einelti getur verið:

 • Líkamlegt: barsmíðar, spörk, hrindingar
 • Andlegt: þegar barn er þvingað til að gera eitthvað sem stríðir gegn sjálfsvirðingu þess og réttlætiskennd
 • Efnislegt: eigur barns eyðilagðar eða þeim stolið
 • Munnlegt: uppnefni, niðrandi athugasemdir, endurtekin stríðni
 • Skriflegt: tölvuskeyti, skrif á samskiptasíður, sms-skilaboð, blogg, bréfasendingar, skrif
 • Óbeint: útilokun úr félagahópi, baktal, neikvæð líkamstjáning

Fyrirbyggjandi aðgerðir gegn einelti

Í Grunnskóla Borgarfjarðar er lögð áhersla á að við berum virðingu fyrir sjálfum okkur og öðrum, tökum ábyrgð á því sem við gerum og segjum og ástundum heiðarleg og réttlát samskipti byggð á gagnkvæmu trausti. Áhersla er lögð á markvissar forvarnir og öflugt samstarf heimila og skóla.

Umsjónarkennari

Umsjónarkennari fylgist náið með námi nemenda sinna og þroska, líðan og almennri velferð, leiðbeinir þeim í námi og starfi, aðstoðar og ráðleggur þeim um persónuleg mál og stuðlar að því að efla samstarf skóla og heimila(lög um grunnskóla, 2008/91).

Umsjónarkennarar gegna lykilhlutverki í forvörnum gegn einelti.

Umsjónarkennari

 • leiðbeinir nemendum um eftirsóknarverða hegðun
 • kynnir eineltisáætlun skólans fyrir nemendum og foreldrum
 • hefur eftirlit með líðan nemenda og ræðir við samstarfsfólk um að fylgjast með nemendum sem eru í áhættuhópi eða grunur leikur á að verði fyrir einelti
 • fjallar reglulega um samskipti innan bekkjarins og fræðir nemendur um ofbeldi og einelti og afleiðingar þess
 • gerir tengslakönnun í bekknum og heldur reglulega bekkjarfundi þar sem m.a.er leyst úr ágreiningsmálum
 • hvetur nemendur til að gera viðvart ef einhver er órétti beittur
 • hefur náið samstarf við foreldra

Starfsfólk

Allt starfsfólk skólans þarf að taka meðvitaða afstöðu gegn einelti. Einelti á erfitt uppdráttar þar sem samvinna, jákvæður agi, virðing og væntumþykja einkennir skólabraginn.

Nemendur

Nemendur geta tekið afstöðu gegn einelti með því að neita að taka þátt í einelti og gagnrýna hegðum gerenda. Brýna þarf fyrir nemendum að sýna vanþóknun sína á hvers kyns einelti og láta umsjónarkennara eða annað starfsfólk vita strax ef þeir verða varir við einhvers konar einelti.

Forráðamenn

Forráðamenn eru hvattir til að ræða um samskipti og líðan við börn sín. Gott upplýsingaflæði milli skóla og heimilis er mikilvægur þáttur í að sporna við einelti.

Viðbragðsáætlun Grunnskóla Borgarfjarðar

Aðgerðarteymi

Grunnskóli Borgarfjarðar starfar í þremur deildum: Hvanneyri, Kleppjárnsreykjum og Varmalandi.  Við skólann er eitt aðgerðarteymi. Aðgerðarteymi hefur umsjón með og sinnir faglegri forystu í eineltismálum sem upp kunna að koma og veitir starfsfólki, nemendum og foreldrum leiðsögn.

Í aðgerðarteymi eru:

 • Skólastjóri
 • Stigsstjóri viðkomandi stigs
 • Námsráðgjafi
 • Umsjónarkennarar þeirra bekkja sem mál varðar.

Skólastjóri skal vera upplýstur um málið frá upphafi og taka þátt í starfi aðgerðar-teymis eftir þörfum og aðstæðum. Sama gildir um umsjónarkennara viðkomandi nemanda/nemenda.

Ferli eineltismála

Tilkynning um einelti

Öll eineltismál, grun um einelti eða staðfestingu, skal skrá á sérstök eyðublað. Blaðið á að berast til umsjónarkennara og námsráðgjafa. Skráning er liður í að hafa yfirsýn yfir eðli og umfang eineltismála í skólanum. Umsjónarkennari heldur nákvæma skráningu um málið.

Grunur um einelti

Vakni grunur um einelti skal tilkynning þar um berast strax til umsjónarkennara eða námsráðgjafa. Umsjónarkennari hefur samband við aðila úr eineltisteymi og skulu þeir hafa náið samráð um viðbrögð og aðgerðir. Umsjónarkennari vinnur ásamt aðgerðarteymi að því að safna saman upplýsingum er tengjast málinu frá þeim kennurum, starfsmönnum og nemendum sem einhverja vitneskju hafa. Umsjónarkennari ber ábyrgð á að taka viðtöl við þá nemendur sem að málinu koma, kanna líðan þeirra og skýra aðgerðarteymi frá niðurstöðu. Umsjónarkennari hefur samband við forráðamenn viðkomandi nemenda.

Aðgerðarferli

Ef í ljós kemur að um einelti sé að ræða, skal eftirfarandi aðgerðaráætlun fylgt:

 • Aukin gæsla sem miðar að því að stöðva einelti samstundis
 • Starfsfólk skólans upplýst um eineltið og ábyrgð allra ítrekuð
 • Skólabílstjórar upplýstir um eineltið og þeir hvattir til að fylgjast með hegðun og líðan nemenda í skólabílum
 • Starfsfólk íþróttahúss upplýst um eineltið, sérstaklega skal huga að gæslu í búningsklefum
 • Forráðamenn viðkomandi nemenda boðaðir í viðtal við umsjónarkennara og deildarstjóra
 • Þolendur og gerendur eineltis fá stuðningsviðtöl hjá skólasálfræðingi ef þörf er talin á.
 • Bekkjarfundir þar sem farið er yfir eineltisáætlun skólans og nemendum veitt viðeigandi leiðsögn
 • Tengslakönnun í bekk, skoða sætisskipan, vinakerfi

Einelti heldur áfram

Ef aðgerðir bera ekki árangur þarf að fylgja málinu frekar eftir

 • Frekari samvinna við forráðamenn þolenda og gerenda
 • Aukið eftirlit, viðurlög
 • Brjóta upp gerendahóp
 • Ráðgjöf frá sálfræðingi eða öðrum sérfræðingum
 • Vísa málinu til nemendaverndarráðs

Skráning

Öll eineltismál, hvort sem um er að ræða grun eða staðfestingu á einelti, skal skrá á þar til gerð eyðublöð. Umsjónarkennari ber ábyrgð á skráningu í samvinnu við deildarstjóra. Eyðublöð skulu varðveitt hjá deildarstjóra.

Aðgerðaráætlun Grunnskóla Borgarfjarðar gegn einelti skal endurskoðuð árlega.

(uppfært í ágúst 2022)

[/cs_element_column][/cs_element_row][/cs_element_section][/cs_content]