Lausnateymi

Lausnateymi er jafningjastuðningur við kennara og hlutverk þess er að skoða stöðu barns og leita sameiginlegra lausna þannig að hægt sé að veita barninu og fjölskyldu þess stuðning.

Í lausnateymum er nám, hegðun, þroski og líðan barns rædd og úrræði fundin til þess að bregðast við erfiðleikum eða aðstæðum barns.

Þetta er gert í góðu samstarfi við foreldra barnsins og þeir virkjaðir með það í huga að úrræðin sem lögð eru til séu nýtt bæði í skóla og á heimili eftir því sem þurfa þykir.

Með því að taka mál fyrir í lausnateymi er unnið eftir hugmyndafræði snemmtækrar íhlutunar og barn og foreldrar þess aðstoðaðir með það að markmiði að efla lífsgæði og framtíðarhorfur barns.

Vinnulag

Kennarar senda tilvísun til lausnateymis á sérstöku eyðublaði ef þeir telja sig þurfa aðstoð og/eða handleiðslu. Lausnateymið tekur fyrir tilvísanir frá kennurum.

Kennarar eru kallaðir á fund teymisins þar sem unnið er í lausnaleit. Ef umsjónarkennari er ekki tilvísandi er hann kallaður á fund teymisins ásamt tilvísunaraðila.

Fyllt er út lausnarblað teymisins þar sem gerð er áætlun um næstu skref.

Lausnateymi getur óskað eftir aðkomu kennsluráðgjafa vegna vinnslu ákveðinna mála, teymið getur afgreitt og sent beiðnir til talmeinafræðinga og atferlisfræðinga.

Þeim málum sem ekki hefur tekist að leysa með aðstoð lausnateymis er vísað til nemendaverndarráðs.